Holuhraun séð úr dróna

Tveimur vikum eftir goslok í Holuhrauni fór fyrirtækið Svarmi með jarðvísindastofnun Háskóla Íslands að mynda hið nýja hraun þar sem notaður var sérsmíðaður dróni til að kortleggja nýja hraunið, gera þrívítt líkan af því, taka loftmyndir í hárri upplausn og gera hæðarmódel. 

„Aðstæður á svæðinu eru sérstaklega krefjandi fyrir notkun ómannaðra loftfara. Lendingar eru mjög krefjandi þar sem það er jú gert í hrauni og því mikill kostur að geta stýrt loftfarinu handvirkt inn til lendingar. Sjálfvirkar lendingar væru mjög erfiðar á þessu svæði þar sem mjög lítið er um opin slétt svæði,“ segir Tryggvi Stefánsson einn af stofnendum Svarma.
Gufustrókar sem stigu upp af hrauninu gerðu myndatöku erfiðari þar sem þeir hylja yfirborð hraunsins. Tryggvi segir að alls hafi verið flogin átta flug og nokkrir ferkílómetrar hraunsins kortlagðir.


„Þetta er í fyrsta skipti sem þetta er gert að minnsta kosti á Íslandi að dróni er notaður til að kortleggja nýtt hraun og þrívítt líkan af hrauninu gert. Þessar upplýsingar nýtast jarðvísindamönnum sérstaklega vel þar sem með þessari aðferð er mörgum milljónum punkta safnað saman á móti því að labba um hraunið með GPS tæki og mæla yfirborð hraunsins og safna nokkur hundruð punktum.
Auk þess er upplausn loftmynda það mikil að hægt er að sjá greinilega ýmis smáatriði á hrauninu sem ekki er í boði með loftmyndum í lægri upplausn. Vísindamenn frá jarðvísindastofnun telja að hraunið og gígarnir sérstaklega muni breytast mikið á næstu mánuðum vegna veðrunar og hruns og því mjög áhugaverð heimild að hafa ítarlegt þrívíddarlíkan af þessu svæði.“


Með gögnunum verður hægt að sjá jafnvel minnstu breytingu á hrauninu. „Það verður því áhugavert að bera þessi gögn við seinni tíma gögn sem safnað verður með ómönnuðum loftförum. Hægt verður að sjá jafnvel minstu breytingar á hrauninu eitthvað sem ekki hefur verið mögulegt áður að gera.“

Nú er um að gera að halla sér aftur í stólnum og njóta gosstöðvanna því svona hafa þær aldrei sést áður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert