Mikil hvatning þegar einhver trúir á mann

Fjáröflunarátak Menntasjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur hófst í dag en sjóðurinn styrkir konur til náms. Í ár styrkir sjóðurinn 27 konur sem eru ýmist í háskóla, menntaskóla eða Tækniskólanum.

Átakið hófst í dag þegar að Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands var seld fyrsta lyklakippan sem notuð er í átakinu og er hönnuð af Tulipop.

„Þegar ég ákvað að fara í skóla var ég nýbúin að missa vinnuna og einstæð með tvö börn, annað þeirra langveikt. Þó svo að upphæðin er ekki há þá hafði ég ekki efni á því að borga skólagjöldin. Menntasjóðurinn hefur hjálpað alveg gríðarlega, það að vita að skólagjöldin eru greidd og bókakostnaður er ómetanlegt.“

Þetta segir Stella Júlía Ágústsdóttir en hún hefur verið styrkþegi hjá Menntasjóðnum í þrjú ár. Í næsta mánuði útskrifast hún með BA gráðu í ensku en hún hóf nám fyrir þremur árum síðan, en þá var hún 36 ára gömul.

Stella segir að stuðningurinn sem hún fékk frá Menntasjóðnum, ekki aðeins fjárhagslega, hafi breytt gríðarlegu miklu fyrir hana og hennar nám.

„Ég get alltaf leitað til þeirra og hef fengið gríðarlegan stuðning. Það hefur hjálpað rosalega mikið,“ segir Stella. „Maður var orðinn aðeins eldri en hinir og margir sem spurðu af hverju ég var að fara í skóla núna. Það var rosalega mikil hvatning að hafa einhvern sem trúir á mann.“ Aðspurð segist Stella ekki viss um hvort að hún ætli að mennta sig meira eftir BA gráðuna en segir að það geti vel verið. „Það er aldrei að vita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert