Mótmælt við moskuna í Feneyjum

Íslenski skálinn.
Íslenski skálinn.

Framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum, moska í gamalli kirkju, hefur gengið vonum framar frá því að sýningin var opnuð gestum, að sögn Bjargar Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Segir hún mörg þúsund manns hafa sótt verkið heim.  

Greint hefur verið frá því að borgaryfirvöld í Feneyjum lýstu yfir áhyggjum vegna hugsanlegrar öryggisógnar í tengslum við verkið. Var meðal annars óttast að það gæti vakið reiði öfgatrúarmanna þar í landi.

Aðspurð segir Björg nokkurn hóp manna hafa safnast saman fyrir utan kirkjuna, sem hýsir moskuna, í þeim tilgangi að mótmæla. „Í gær átti sér stað smá umræða fyrir utan. En við ræddum bara við það fólk, sem í kjölfarið róaðist,“ segir hún og heldur áfram: „Auðvitað er þetta verk sem að vekur spurningar hjá mörgum. Þetta er náttúrulega fyrsta moskan í Feneyjum sem sett hefur verið upp.“

Að sögn hennar var hópurinn, sem samanstóð af um tíu manns, ekki mjög hávær í mótmælum sínum. Að sama skapi tóku allir vel í það þegar aðstandendur sýningarinnar nálguðust það og útskýrðu verkið betur. „Það var frábært að tala við þetta fólk [...] en það var að vísu einn maður sem var ekki til í það og rauk reiður í burtu.“

Spurð hvernig íbúar í námunda við verkið taki því svarar Björg: „Ég hitti mann sem býr beint á móti og hann var mjög ánægður með þetta. Það fannst mér sérstaklega ánægjulegt.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Verður moskunni lokað?

Stappað út úr dyrum moskunnar

Töldu moskuna ógna öryggi

Moska í íslenska skálanum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert