Ekki bara vandamál ríkisins

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Íslenskur vinnumarkaður og sú erfiða staða sem þar er uppi var til umræðu þegar óundirbúinn fyrirspurnatími fór fram á Alþingi í dag. Vék Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, meðal annars að jaðarsköttum og atvinnurekendum í máli sínu.

Til þess að skapa betri stöðu fyrir gerð komandi kjarasamninga sagði Bjarni meðal annars hægt að breyta skattkerfinu. „Það þarf að lækka aftur skatta sem voru hækkaðir hér á síðustu árum. Það skiptir máli, til dæmis fyrir millitekjuhópana. Það skiptir máli til þess að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins,“ sagði ráðherrann og benti á að of háir jaðarskattar væru nú til staðar. 

„Þeir fara, hjá millitekjufólki, yfir 50 prósent. Það þýðir að meira en önnur hver króna sem þú bætir við þig í laun hverfur í skatt eða tapaðar bætur. Mér finnst það vera of mikið,“ sagði Bjarni og hélt áfram: „Nú það kann að vera að einhverjir jafnaðarmenn hér í húsinu telji að það sé bara mátulegt - að það mætti vera 60 eða 70 prósent - en það er bara of langt gengið.“

Er það á ábyrgð ríkisins?

Því næst vék Bjarni sér að atvinnurekendum.

„Ég tel að atvinnurekendum í landinu hafi tekist um of að velta ábyrgðinni á því að gera betur við þá sem eru í lægstu launaflokkunum í fangið á ríkinu. Það er ekkert eðlilegt við það að með þau bótakerfi sem við erum með og tekjuskattskerfið eins og það er í dag, þar sem að ríkið sér ekki eina krónu af launum upp í 240.000, að það sé áfram þannig að það sé vandamál ríkisins að bæta betur hlut þessa fólks,“ sagði Bjarni og bætti við að sá tími hlyti að koma að atvinnurekendur taki að sér að greiða mannsæmandi laun til þeirra tekjuminnstu.

„Það getur ekki bara verið vandamál ríkisins.“

Fyrri frétt mbl.is af Alþingi í dag:

Kjaramálin brunnu á þingmönnum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert