„Ég sagði engum frá“

Guðrún Ögmundsdóttir hefur ekki greint opinberlega frá ofbeldinu fyrr en …
Guðrún Ögmundsdóttir hefur ekki greint opinberlega frá ofbeldinu fyrr en nú en ákvað að tímabært væri að taka upp úr bakpokanum. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Ég var þetta barn sem allar rannsóknirnar beinast að.“

Með þessum orðum hóf fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Guðrún Ögmundsdóttir, áhrifaríka frásögn sína af eigin upplifun af heimilisofbeldi á málþingi Háskólans í Reykjavík um heimilisofbeldi á Íslandi í dag.

Guðrún hefur víðtæka reynslu af starfi á vegum hins opinbera í þágu barna og þolenda heimilisofbeldis en tók fram í upphafi erindis síns að sú reynsla væri ekki það sem hún hygðist segja frá. Erindi Guðrúnar bar yfirskriftina „Að taka upp úr bakpokanum“ en með því að segja frá líkamlegu ofbeldi föður síns gegn móður sinni létti Guðrún á táknrænan hátt af baki sér þeim byrðum sem þögnin er og lagði með því áherslu á hversu erfitt getur verið að fá börn til að greina frá heimilisofbeldi.

„Ég var nákvæmlega eins og öll önnur börn í dag,“ sagði Guðrún. „Ég sagði engum frá. Ef ég hefði ekki unnið í þessum málaflokki hefði ég kannski ekkert munað, né viljað muna, né viljað setja þetta í orð.“

„Ég skynja bara ógnina“

Guðrún dró upp nokkrar svipmyndir úr æsku sinni sem gáfu hugmynd um það ofbeldi sem átti sér stað á heimili hennar. Sagði  hún frá því hvernig hún myndi eftir því að hafa beðið eftir því við gluggann heima hjá sér sem barn að faðir sinn kæmi heim. Þegar faðir hennar skilaði sér ekki á réttum tíma vissi hún í hvað stefndi.

„Ég veit það þegar ég stend við hliðina á mömmu. Ég veit það þegar óttinn tekur hús. Ég veit það þegar það verður líkamlegt, ég pissa bara á mig og ég segi ekki nokkrum manni frá þeirri skömm. Ég fer með ömmu og greinilega hef ég upplifað svipað áður þó ég muni það ekki alla tíð.“

Guðrún sagðist muna hvernig hún vissi það inn í sér að faðir hennar væri að fara að beita móður hennar ofbeldi þegar hann kom heim með vinnufélögunum. „Ég skynja bara ógnina, ég skynja að eitthvað voðalegt geti gerst. Það gerist um leið og vinnufélagarnir eru farnir, þeir halda að allt verði í lagi en auðvitað verður það ekki. Allt brotið og bramlað, barsmíðar, ofsi, grátur, högg.“

Guðrún segir að það hafi þurft þrjá lögreglumenn til að koma föður hennar inn í lögreglubíl og að heimilið hafi verið sem rjúkandi rústir. Þrátt fyrir að faðir hennar hafi lagt hendur á móður Guðrúnar sagði hún að ósýnileg lína hefði legið  í gegnum húsið því faðir hennar beitti hana og ömmu hennar ekki líkamlegu ofbeldi.

„Þetta var sérstakur tími fyrir barn að upplifa, sektarkenndin lá í loftinu eins og mara,“ sagði Guðrún. „Martröðin var ekki síst hljóðin, ofsinn,, ópin, hryllingurinn. (...)Ég tek enn fyrir eyrun til að útiloka eitthvað óþægilegt og Faðir vorið verður mín mantra.“

Hefur enn áhrif í dag

Guðrún sagðist hafa kennt sjálfri sér um ofbeldið, eins og svo mörg börn gera, og að þó svo að hún viti betur í dag sitji þessi reynsla í henni og hafi á hana áhrif enn í dag. Sagði Guðrún hverskonar ofbeldi sem hún yrði vitni að í dag hafa mikil áhrif á sig. Nefndi hún sem dæmi þegar hún sá hóp af fólki ráðast að bíl ráðherra og hrista hann skömmu eftir bankahrunið 2008.

„Ég gjörsamlega panikkeraði, hnippti í mann og lét hann leiða mig yfir Arnarhól í vinnuna, ég held ég hafi verið óvinnufær í marga daga,“ sagði Guðrún.

Guðrún sagði sögu sína blátt áfram með styrkri röddu. Þrátt fyrir öruggt yfirbragðið var þó greinilegt að það tók á fyrir hana að segja frá upplifunum sínum en hún greindi frá því undir lok erindis síns að hún hefði gleymt að lesa heila blaðsíðu af því sem hún hafði skrifað niður. Nefndi hún að meðal þess sem hún hefði gleymt að greina frá væri  hvernig hún var sett í fang föðurs síns til að róa hann niður. „Eina sem ég gat gert var að strjúka honum um þetta litla hár sem hann hafði, vera góð,“ sagði Guðrún og spurði salinn hvort það væri sanngjarnt að leggja slíkar byrðar á börn.

Guðrún sagði verulega erfitt að taka upp úr sínum táknræna bakpoka. Sagðist hún ekki telja að hún væri að svíkja sína nánustu með því að greina frá ofbeldinu heldur standa með sjálfri sér og að hún vildi að fleiri gerðu það. Sagðist Guðrún vilja nota sögu sína á þessum vettvangi hversu erfitt það getur verið að fá börn til að segja frá enda væri ást milli barna og foreldra sterk auk þess sem erfitt sé að setja svo þungbæra hluti í orð.

„Við skulum vinna saman og við skulum gera börn sýnileg,“ sagði Guðrún að lokum við fundargesti. „Tökum þau alvarlega og setjum þeirra reynslu í fyrsta sæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert