Fleiri umsagnir með þjóðaratkvæði

Evrópusambandið
Evrópusambandið AFP

Fyrr á þessu ári lögðu formenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Frestur til að skila inn umsögnum við þá tillögu er nú liðinn og bárust alls átta formlegar athugasemdir.

Flutningsmenn tillögunnar eru Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar og Birgitta Jónsdóttir, þáverandi formaður þingflokks Pírata.

Samkvæmt tillögu stjórnarandstöðuflokkanna skyldi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið fara fram þann 26. september næstkomandi. Yrði þá eftirfarandi spurning borin upp í atkvæðagreiðslunni: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Brot úr umsögnum þeirra sem styðja þjóðaratkvæðagreiðslu

Benedikt Jóhannesson „Það er þjóðinni til heilla að kosið sé um málið og þannig útkljáð hvort meirihlutinn vill ljúka samningum eða ekki. Ég var þeirrar skoðunar eins og flestir þeir sem nú skipa meirihluta á þingi árið 2009 og er enn. Rökin fyrir því hafa ekki breyst.“

Já Ísland „Fyrirætlan ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðum við Evrópusambandið gengur þvert gegn gefnum loforðum og kröfum um aðkomu þjóðarinnar að þessu mikilvæga máli. Alþingi og ríkisstjórn ber skylda til þess að stíga varlega til jarðar og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að ná fram sáttum. Til þess er bara ein leið fær - að leggja málið i dóm þjóðarinnar.“

Kennarasamband Íslands „Kennarasamband Íslands styður almennt aukið beint lýðræði sem getur m.a. falist í því að almenningur fær að kjósa um tiltekin mál og er því fylgjandi tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Neytendasamtökin „Skoðun Neytendasamtakanna [er sú] að eðlilegt sé að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda beri áfram aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið og er því lýst yfir stuðningi við framangreinda tillögu.“

Samtök iðnaðarins „Frjáls og óhindruð viðskipti og aðgangur að erlendum mörkuðum er lífæð íslenskra fyrirtækja. EES-samningurinn skiptir þar sköpum en óvíst er hvort hann einn þjóni hagsmunum okkar til lengri tíma litið. Nauðsynlegt er að tryggja að framhald aðildarviðræðna við ESB verði lagt í dóm þjóðarinnar. [...] Samtök iðnaðarins [telja] rétt og eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.“

Við erum sammála, félag „Skorað er á Alþingi og ríkisstjórn að sjá að sér og setja framhald málsins í dóm þjóðarinnar. Þingsályktunartillaga þessi er góð leið til þess. Félagið styður hana heils hugar.“

Brot úr umsögnum þeirra sem eru á móti þjóðaratkvæðagreiðslu

Bændasamtök Íslands „Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að ESB er [...] innihaldslaus við núverandi aðstæður, þ.e. meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn aðild að ESB og engin áform eru af þess hálfu um að ljúka viðræðum og taka inn ný ríki á næstu árum. Eina þjóðaratkvæðagreiðslan um ESB sem myndi hafa þýðingu undir þessum kringumstæðum fælist í því að spyrja þjóðina hvort hún vildi ganga í sambandið eða ekki, en framangreind þingsályktunartillaga leggur það ekki til.“ 

Heimssýn „Heimssýn, samtök sjálfstæðissinna í Evrópumálum, vinna að því að halda Íslandi fyrir utan ESB þar sem samtökin telja það þjóna best hagsmunum Íslendinga að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð fyrir utan hið miðstýrða ríkjasamband sem ESB er og sem byggir fyrst og fremst á hagsmunum stóru iðnaðarþjóðanna í Evrópu. [...] Heimssýn [...] leggur því til að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga verði ekki samþykkt.“

Ólík afstaða en eðlilegt að leita til þjóðarinnar

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að núverandi stjórnarandstöðuflokkar hafi ólíka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. „Hins vegar er sameiginleg niðurstaða flutningsmanna sem koma úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar að þetta mál sé af slíkri stærðargráðu að eðlilegt sé að leita leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess. Af þeim sökum er lögð þung áhersla á að tillagan verði afgreidd á þessu þingi þannig að unnt verði að sækja þá leiðsögn.“

Nálgast má umsagnirnar í heild sinni á heimasíðu Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert