Harpa er vel byggt hús

Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn
Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn Júlíus Sigurjónsson

Morgunblaðið óskaði eftir viðbrögðum forsvarsmanna Hörpu við grein Örnólfs Hall arkitekts sem birtist í blaðinu þann 14. maí s.l. Fasteignasvið Hörpu tók saman ábendingar um helstu atriði sem þar eru nefnd og fara þær hér á eftir. Ekki var rúm til að birta svarið í heild í Morgunblaðinu og birtist það hér óstytt.

„1. Ryðmyndanir:

Því var stundum haldið fram við opnun hússins að stálvirki glerhjúpsins myndi ryðga og vísað til ryðpunkta á stáli á byggingartíma sem voru eðlilega fjarlægðir samhliða endanlegum yfirborðsfrágangi glerhjúpsins fyrir opnun hússins. Ekki er hægt að útiloka að raki geti þést á einstaka stað og valdið ryðpunktum en málningarkerfið, þrefalt vatnsvarnarkerfi, slitnar kuldabrýr, stýrðar umhverfisstæður stálsins innanhúss og þar með talin loftræsing í gegnum glerhjúpinn koma hins vegar í veg fyrir að þetta verði vandmál eins og reynslan hefur sýnt þau fjögur ár sem eru liðin frá opnun Hörpu.
Hvað fyrri „stuðlavegg“ varðar þá þurfti verktaki að skipta um vegginn á sinn kostnað vegna galla sem komu fram í stálsteypuhornum við yfirferð prófunarskýrsla. Sá samningur var það sem kallað er „design and build“ það er verktakinn var ábyrgur fyrir deilihönnun, framleiðslu og uppsetningu. Innri skipting kostnaðar vegna þessa er ekki þekkt enda um heildarsamning að ræða og ekki var gerð krafa um að verktakinn skilaði af sér sundurliðun kostnaðarliða. Harpa varð ekki fyrir beinum kostnaði af völdum þessa en afleiddur kostnaður vegna óþæginda við opnun hússins hefur ekki verið metinn.

2. Málmsuða, málmsmíði og samtengingar:

Eflaust má finna einhverjar suður sem ekki standast fullkomlega fegurðarkröfur en það er lítið hlutfall af þeim tugum þúsunda suða sem eru í burðarvirki glerhjúpsins. Hornsamsetningar eru smekksatriði en mikil áhersla var lögð á þær sérstaklega þar sem þrívíður glerhjúpur mætir tvívíðum hliðum á suðurhlið.


3. Sílikonfúgur:

Almennt eru fúgurnar ágætlega frá gengnar. Verktaki þurfti að skera upp frágang silikonfúgu á miðri norðurhlið á 1.hæð og endurnýja sílikonfúgu milli glerja vegna þess að lokað hafði verið fyrir frárennslisleið vatns í drenkerfi glugganna og vatn safnast þar fyrir. Það var á ábyrgð og kostnað verktaka að bæta úr þessu. Ekki hefur fallið til kostnaður á Hörpu vegna silikonfúguþéttinga.

4. Sjónsteypa inni og úti:

Almennt má segja að svarta sjónsteypan í Hörpu hafi heppnast vel. Sérstaklega ef tekið er tillit til þess fjölda veggja sem þurfti að steypa. Hins vegar eru dæmi um steypur sem tókust verr en aðrar en þóttu ekki það slæmar að réttlætti niðurbrot og endursteypu. Í nokkrum tilfellum var það hins vegar mat verkfræðistofunnar Eflu að niðurbrots og endursteypu væri þörf og var það gert.


5. Gólf og stigar:

Flísalögn var tekin út af Eflu en skv. samningi milli Byggingarfulltrúa, verkkaupa, Austurhafnar og ÍAV var framkvæmdaeftirlit við Hörpu falið EFLU og ÍAV (glerhjúpurinn). Ekki var gerð athugasemd við flísalögnina.
Gólfefni á 2. til 5. hæð var valið af arkitektum hússins og er það smekksatriði hvort þau eru talin falleg eða ekki, um það skal ekki deilt hér.
Aðgengisfulltrúi blindrafélagsins kom í Hörpu og tók út aðgengi með tilliti til sjóndapra. Ekki var gerð athugasemd við stigaþrep á ljósu stigunum en settar voru litamerkingar á alla blágrýtisstiga.

6. Aðalstigi (neyðarstigi):

Stiginn er mun lengri en hefðbundinn stigi með millipalli vegna þess hversu framstig eru djúp og uppstig lág og því ágætlega öruggur. Stiginn er mjög breiður og einnig hugsaður sem staður þar sem hægt er að staldra við. Fyrirkomulag stigans var tekið upp í samræðum við byggingarfulltrúa og samþykkt.

Varðandi að eldur hafi komið upp í Eldborgarsal á smíðatíma þá má í báðum tilfellum rekja það til óvarlegrar vinnu með logsuðutæki. Tekið var á því vandamáli í samvinnu verktaka, eftirlits og Vinnueftirlits.

7. Handrið:

Handriðshæðir eru almennt 800 mm í Eldborgarsal skv. samþykkt byggingarfulltrúa sbr. ákvæði gr. 202.16 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og skoðun byggingarfulltrúa á handriðshæðum á fremstu svölum Þjóðleikhússins, en þar er hæð 700 mm og á fremstu svölum Salarins í Kópavogi en þar er hún 740 mm. Á báðum þessum stöðum liggur fyrir að notkun hefur verið áfallalaus. Undantekning á því eru handrið við 2.-4. sætaröð sem eru 730mm. Ástæða þess er að annars kæmi til truflunar á sjónlínum gesta á þessum svölum. Byggir sú heimild á ákvæðum í International Building Code, USA, 10.kafli, gr. 1028.14.1. Harpa er tryggð og er tryggingafélagið meðvitað um handriðshæðir í Eldborgarsal.
Hönnun stálhandriðs var samþykkt af byggingarfulltrúa en ekki hafa komið upp vandamál í daglegri notkun þeirra.


8. Hjúprúður og hjúpviðgerðir:

Nokkrum rúðum var skipt út vegna galla sem uppgötvuðust á framkvæmda- og ábyrgðartíma á kostnað verktaka. Skipt hefur verið um eina rúðu í austurhúsi vegna móðu og bar framleiðandi kostnað af nýrri rúðu en Harpa kostaði uppsetningu. Einu sinni á ári er allur glerhjúpurinn þrifinn en fyrsta hæðin er þrifin á nokkurra vikna fresti.
Ýmsar ástæður eru fyrir bómukranabílum við Hörpu. Byggingarefni fyrir framkvæmdir á 6. og 7. hæð var til að mynda híft upp á svalir 6. hæðar til að minnka ágang á lyftur og stiga. Í nokkrum tilfellum þurfti verktaki að vinna að úrbótum á húsinu í samræmi við ábyrgð hans á verkinu er þá bæði átt við flasningar á þakkanti og sílikon þéttingar sem ekki var gengið nógu vel frá.

9. Stétt:

Eins og annað í Hörpu var stéttin á torginu tekin út af Eflu.

10. Kvartanir Hörpugesta:

a) Aðgangur fatlaðra:
Haldinn var fundur með fulltrúum Sjálfsbjargar þar sem komu fram nokkrar athugasemdir við aðgengi fatlaðra í Hörpu. Byrjað er að vinna í þeim lagfæringum sem aðilar voru sammála um að rétt væri að fara í. Þegar höfðu verið gerðar breytingar á speglum á salernum fatlaðra sem voru of háir.
b) Óvirðulegur og ómerktur aðalinngangur: Fyrir utan inngang Hörpu er skilti sem gefur upplýsingar um húsið og íbúa þess.
c) Biðraðir vegna of fárra lyfta: Þær myndast stundum en raunin er sú að húsið getur tekið við ótrúlega miklum fjölda gesta í einu eins og ótal dæmi sanna.
d) Óþægilegir stólar í Eldborg: Ætli það fari ekki eftir smekk og sköpulagi hvers og eins. Yfirleitt virðist vera mikil ánægja með Eldborgarsalinn og hann var kjörinn einn af bestu tónleikasölum heims af erlendu tímariti.
e) Erfitt að safnast saman í tónleikahléum: Opnu rýmin í Hörpu eru afar stór og oftast virðist fara vel um fólk þar. Þegar best lætur, eins og til dæmis á menningarnótt, hafa komið allt að 25 þúsund manns í húsið á einum degi.


11. Úttektir og óveðursþol:

Skv. samningi milli Byggingarfulltrúa, verkkaupa, Austurhafnar og ÍAV var framkvæmdaeftirlit við Hörpu falið Eflu og ÍAV (glerhjúpurinn) skv. sérstökum samningum. Allar úttektir þessara aðila hafa verið afhentar Byggingarfulltrúa. Allar úttektir Eflu voru skráðar í Erindreka byggingarfulltrúa eða samtals 3000 úttektir. Vísað er á Byggingarfulltrúa varðandi afhendingu gagna almennt um byggingu hússins.
Varðandi óveðursþol Hörpu þá losnaði skrautkantur á þaki í mjög slæmu veðri í nóvember. Farið verður í viðgerð á skrautkantinum í sumar þar sem ekki þótti óhætt að klára viðgerð vegna veðurs. Opnanlegt fag á austurhlið lekur og þarf að stilla mótora þar sem fagið lokar ekki nógu vel. Einhverjir slíkir hlutir koma alltaf upp í stórum byggingum en í heild hefur húsið staðið vel af sér bæði veður og vinda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert