Vágestur sem snertir alla

Haukur Dór við eitt verkanna í myndröðinni Föstudagurinn langi.
Haukur Dór við eitt verkanna í myndröðinni Föstudagurinn langi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Haukur Dór myndlistarmaður hefur ákveðið að ágóðinn af næstu sýningu sinni sem opnuð verður um páskana 2016 muni renna óskiptur til Krabbameinsfélags Íslands. Hann missti fyrri konu sína úr krabbameini og sú seinni berst nú við þennan illvíga sjúkdóm.

„Við eigum eftir að útfæra þetta í smáatriðum en forstöðukona Krabbameinsfélagsins hefur tekið hugmyndinni fagnandi. Það er mér mikil gleði að geta stutt félagið og vonandi vilja einhverjir kaupa myndirnar. Þetta er það minnsta sem ég get gert, krabbamein er vágestur sem snertir alla,“ segir Haukur Dór en þetta verður í fyrsta sinn sem verk úr myndröðinni verða seld.

Röðin á sér djúpar og sársaukafullar rætur en Haukur Dór missti fyrri eiginkonu sína, Ástrúnu Jónsdóttur, úr krabbameini á föstudaginn langa 1994. Hún var 56 ára gömul. „Hún fékk krabbamein í eggjastokkana og dauðastríðið tók fjórtán mánuði. Við bjuggum í Danmörku á þessum tíma og hún dó þar,“ segir Haukur Dór.

Hann flutti heim til Íslands fljótlega eftir það og kynntist síðar seinni eiginkonu sinni, Þóru Hreinsdóttur myndlistarkonu. Sjaldan er ein báran stök því hún glímir nú einnig við krabbamein. Meinið greindist í öðru brjóstinu fyrir tveimur árum og var það numið brott. Aðgerðin gekk vel en nýlega kom í ljós að meinið er ekki farið úr líkamanum og er Þóra í strangri meðferð um þessar mundir. „Þetta var vitaskuld mikið áfall og ýfir upp sárar minningar,“ segir Haukur Dór.

Hann kveðst lengi hafa velt dauðanum fyrir sér í sínum verkum en eftir að Ástrún féll frá hafi hann gert það með allt öðrum hætti. „Eftir að hún dó byrjaði ég markvisst að mála dauðann. Þarna fann ég sorginni, reiðinni og einmanaleikanum farveg og hafði mikið gagn af þessu. Það var eins og þetta losaði um eitthvað hjá mér. Var mín terapía. Þegar ég horfi á þessar myndir er eins og ég sjái mínar eigin tilfinningar – og þær eru ekki alltaf fallegar.“

Nánar er rætt við Hauk Dór í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert