Fleiri hætta í námi vegna veikinda

Þessir nemendur eru að ljúka námi í Verslunarskóla Íslands í …
Þessir nemendur eru að ljúka námi í Verslunarskóla Íslands í vor og fögnuðu námslokunum nýverið með því að klæðast peysufötum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt upplýsingum frá 31 framhaldsskóla kom fram að 790 nemendur hefðu hætt námi á haustönn 2014, þ.e. hurfu frá námi án þess að ljúka prófum í lok annarinnar. Af þeim fóru 117 nemendur í annan skóla og teljast þeir því ekki til eiginlegs brotthvarfshóps. 

Af því leiðir að 673 nemendur sem hófu nám á haustönn 2014 voru hættir í skólunum áður en til lokaprófa kom. Á framhaldsskólastigi stunduðu 26.964 nemendur nám á haustönn 2013 og má gera ráð fyrir að svipaður fjöldi hafi stundað nám á haustönn 2014. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýlegri skýrslu um brotthvarf úr framhaldsskólum á haustönn í fyrra.

Undanfarin ár hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið, í samstarfi við framhaldsskólana, beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr brotthvarfi nemenda. Aðgerðirnar snúa meðal annars að því að kalla eftir upplýsingum um brotthvarf og skima fyrir brotthvarfi í framhaldsskólum landsins. 

Aukning í því að ungt fólk hætti námi vegna andlegra veikinda

Niðurstöður sýna að nemendum sem ekki skiluðu sér í próf fækkaði á milli anna. Það er þó áhyggjuefni að nemendum sem segjast hafa hætt vegna andlegra veikinda fjölgar á milli anna og við því þarf að bregðast, segir í skýrslu Námsmatsstofnunar.

Ef skoðaður er nánar sá hópur sem er á aldrinum 16-20 ára má sjá að hjá þeim sem eru yngstir í þessum hóp, eða fæddir árið 1998 (16 ára), hættu flestir til að fara í aðra skóla. 18 nemendur, eða 18% af heildarfjölda á þessum aldri, sögðust hafa hætt vegna andlegra veikinda og 9 nemendur sögðust hafa hætt vegna þess að þeir höfðu ekki áhuga eða þeim fannst námið tilgangslaust.

Hjá nemendum sem fæddir eru 1997 (17 ára) hættu einnig flestir til að fara í aðra skóla. Í þessum hóp hættu 12 nemendur eða rúm 11% af heildarfjölda þeirra sem hættu á þessum aldri vegna andlegra veikinda og 10 eða 9% fóru að vinna.

Flestir af þeim sem hættu í hópi nemenda á aldrinum 16-20 ára eru fæddir 1996 og voru samkvæmt aldri á sínu þriðja ári í framhaldsskóla. Samtals 23, eða rúm 14%, skiptu um skóla og sami fjöldi hætti vegna andlegra veikinda. Alls 28, eða tæp 18% nemenda úr þessum árgangi, hættu námi til þess að fara út á vinnumarkaðinn.

Alls 109 nemendur sem hættu á aldrinum 16-20 ára eru fæddir árið 1995 og áttu samkvæmt aldri að vera að ljúka framhaldsskóla nú í vor. Samtals 16, eða tæp 15% nemenda á þessum aldri, fóru í aðra skóla.

Alls 17, eða tæp 16% nemenda, fóru að vinna og 13, eða 12%, sögðu námið tilgangslaust og 10 eða 9% nemenda hættu vegna andlegra veikinda.

Alls 40% allra sem hættu voru nemendur eldri en 20 ára. Algengasta ástæðan fyrir brotthvarfi úr þessum hóp var að nemendur fóru að vinna en alls hættu 71, eða 22% af heildarfjölda hópsins, vegna þessa. Samtals hættu 35 nemendur, eða 11%, vegna andlegra veikinda.

80 vísað úr skóla

Alls var 80 nemendum vísað úr skóla vegna brota á skólareglum. Líklegt er að flestir sem tilheyra þessum hóp hafi ekki staðist viðmið um reglur er varða mætingar en það þyrfti að kanna betur, segir í skýrslunni.

Ekki var marktækur munur á því hvort nemendur sem vísað var úr skóla vegna þessa tilheyrðu hópi þeirra sem yngri voru eða eldri en 20 ára. Þess ber að geta þess að skólum er óheimilt að vísa nemendum á fræðsluskyldualdri (yngri en 18 ára) úr skóla eingöngu vegna slakrar mætingar og því líklegt að þeir nemendur sem eru yngri en 18 ára og tilheyra þessum hópi hafi brotið annarskonar skólareglur.

Veikindi algengari ástæða hjá stúlkum en drengjum

„Þegar litið er á uppgefnar ástæður nemenda flokkaðar eftir kyni má sjá að nokkur munur er á því hvaða ástæður nemendur gáfu fyrir því að hafa hætt námi. Sem dæmi má nefna að algengara var að drengir hættu til þess að fara að vinna, væri vísað úr skóla vegna brots á skólareglum eða fyndist námið tilgangslaust á meðan andleg og líkamleg veikindi og að skipta um skóla voru mun algengari ástæður hjá stúlkum. Þessi munur milli kynja gefur tilefni til þess að skoða hvort ekki þurfi að beita mismunandi úrræðum eftir kyni nemenda til þess að takast á við vandann,“ segir í skýrslunni.

Óskað var eftir því að skólarnir skráðu sérstaklega hvort móðurmál þeirra sem hættu væri annað en íslenska. Niðurstöður leiddu í ljós að 10 nemendur af þeim 790 sem hættu námi á haustönn 2014 höfðu annað móðurmál en íslensku.

Brotthvarfið meira á vorönn 2014

Á vorönn 2014 skráðu skólarnir að alls hefðu 869 nemendur hætt námi og þegar búið var að taka frá þá 78 nemendur skiptu um skóla stóð eftir 791 nemandi sem taldist til hóps eiginlegra brotthvarfsnemenda. Til samanburðar var heildarfjöldi þeirra sem hætti í námi á haustönn 2014 790 og að frádregnum þeim 117 sem fóru í annan skóla var eiginlegur fjöldi þeirra sem hættu á haustönn 2014, 673.

Af þessu má sjá að brotthvarf á haustönn, samkvæmt þessari mælingu, er sem nemur 118 nemendum minna en á vorönn 2014. Heildarfjöldi þeirra sem skiptu um skóla jókst þó um tæp 6% á milli anna. Nemendum sem fóru að vinna fjölgaði einnig eða um tæp 6% og þess ber að geta að á vorönn hættu 3,1% nemenda vegna verkfalls kennara í framhaldsskólum.

Á vorönn 2014 var 247 nemendum vísað úr skóla vegna brots á skólareglum, flestir tilheyrðu hóp þeirra sem ekki stóðust viðmið skólanna um mætingu.

„Það er ljóst að þegar nemendur mæta illa eða hætta að mæta í skólann þá liggja að baki því misjafnar ástæður. Það var því lögð áhersla á að skólarnir hefðu samband við þá nemendur sem voru hættir að mæta á haustönn 2014 til að fá nánari útskýringar á fjarveru nemenda. Þetta tókst vonum framar og tókst að greina hópinn betur en á undanförnum önnum. Ekki náðist í 79 nemendur sem hættu á haustönn 2014. Það er áhyggjuefni að nemendum sem sögðust hætta vegna andlegra veikinda fjölgar á milli ára eða um rúm 3%. Einnig fjölgaði um 3% í hóp þeirra sem hættu vegna líkamlegra veikinda,“ segir í skýrslunni en hana er hægt að lesa í heild hér.

Skapti Hallgrímsson
Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert