Verður að lúta sömu reglum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Styrmir

„Þessi framganga félagsmálaráðherra kemur mér verulega á óvart. Þetta mál er í sjálfu sér ósköp einfalt,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is vegna frumvarps Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði. Frumvarpið var lagt inn í fjármálaráðuneytið til kostnaðarmats en Eygló sagði í fjölmiðlum í gær að ráðuneytið hefði óskað eftir því að hún drægi það til baka. Bjarni segir að röng mynd hafi verið dregin upp af stöðu málsins og samskiptum ráðuneytanna.

„Það er lagt inn frumvarp til kostnaðarmats í fjármálaráðuneytinu. Eftir að vinna hefst við að framkvæma kostnaðarmatið kemur fram að velferðarráðuneytið er að vinna að breytingum á frumvarpinu. Þá er það verklagsregla í samskiptum á milli ráðuneytanna að vinnu við kostnaðarmatið er hætt og farið fram á að ráðherrann afturkalli málið og leggi það fram að nýju þegar það hefur verið fullunnið,“ segir Bjarni. Í millitíðinni hafi hins vegar komið fram að byrjað væri að ræða efnisatriði frumvarpsins við aðila vinnumarkaðarins, þar sem það hefði fallið í grýttan jarðveg, þrátt fyrir að félagsmálaráðherra hefði ekki fengið það samþykkt í ríkisstjórn.

Engin efnisleg athugasemd verið gerð

„Það hefur engin efnisleg athugasemd verið gerð af hálfu fjármálaráðuneytisins við frumvarpið. Það er rangt að ég vilji að félagsmálaráðherra afturkalli málið af einhverjum efnislegum ástæðum. Það er einfaldlega ekki unnið að kostnaðarmati vegna máls sem er ennþá í mótun. Það er ekki þannig að hægt sé að hafa kostnaðarmat bara í handraðanum á meðan verið er að athuga hvort leggja eigi málið fram í einhverri annarri mynd. Ég verð að lýsa mikilli furðu á því upphlaupi sem hefur orðið út af þessu tiltekna máli allt frá því að það var fyrst lagt fram til kostnaðarmats í fjármálaráðuneytinu,“ segir Bjarni ennfremur.

Félagamálaráðherra verði að sætta sig við að frumvarp hennar lúti sömu reglum og önnur slík. „Það verður að hafa það í huga að venjulegur gangur fyrir frumvörp er sá að þau eru fullunninn, síðan er framkvæmt kostnaðarmat og eftir það eru þau tekin á dagskrá í ríkisstjórn og að því loknu í þingflokkum ef ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja þau fram á Alþingi. Og félagsmálaráðherra verður einfaldlega að sætta við það að þetta mál sé unnið eftir sömu reglum og önnur mál.“

Fréttir mbl.is:

Vildi að Eygló drægi frum­varpið til baka

Frumvarpið ekki verið dregið til baka

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert