Einhugur um húsnæðisfrumvörpin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að einhugur sé um það í ríkisstjórninni hvernig beri að nálgast húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra. Þetta kom fram í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

„Félagsmálaráðherra hefur lýst því að hún sé tilbúin að gera þær breytingar sem þurfa þykir á frumvarpinu til þess að liðka fyrir kjarasamningum og til þess að stuðla að góðri niðurstöðu kjarasamninga. 

Við erum öll sammála um það í ríkisstjórninni. Þannig að það er alger einhugur um það hvernig ber að nálgast þetta mál, að það eigi að nýta tækifærið núna til þess að stuðla að farsælli niðurstöðu á vinnumarkaði og bæta um leið stöðu heimila í landinu,“ sagði Sigmundur Davíð.

Eygló sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hún hefði unnið í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins, meðal annars að húsnæðismálum. „Ég von­ast til þess að sú vinna leiði til niður­stöðu fljót­lega.“

Frumvarp Eyglóar um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði var lagt inn í fjármálaráðuneytið til kostnaðarmats en þeirra vinnu hefur verið hætt.

Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra sagði í sam­tali við mbl.is í gær að ástæða þess væri sú að komið hefði ljós að unnið væri að breyt­ing­um á frum­varp­inu. Ekki hafi því verið tal­in ástæða til þess að halda þeirri vinnu áfram fyrr en end­an­leg út­gáfa frum­varps­ins lægi fyr­ir.

Eygló benti í dag á að fjár­málaráðuneytið hefði staðfest að frum­varpið hefði ekki verið dregið til baka líkt og greint var frá í fjöl­miðlum í síðustu viku.

Frétt mbl.is: Vonast eftir lendingu fljótlega

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert