Fresta afgreiðslu á beiðnum um svínaslátrun

Undanþágunefnd Dýralæknafélags Íslands hefur ákveðið að fresta öllum afgreiðslum á beiðnum um svínaslátrun, að öllum líkindum til morguns. En þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar nú fyrir hádegi. 

Sigríður Gísladóttir, dýralæknir sem situr í stjórn Dýralæknafélags Íslands, segir í samtali við mbl.is, að tvær ástæður liggi að baki ákvörðuninni. Í fyrsta lagi hafi vantað yfirlýsingar um frystingu, eða geymslu, á afurðunum. Í öðru lagi hafi vantað skýrslur um ástand dýravelferðar á búunum, en um er að ræða tvö bú.

Sigríður bendir á, að þessar skýrslur séu unnar af dýralæknum og starfsmönnum Matvælastofnunar, en stofnunin óskaði eftir undanþágu fyrir starfsmenn til að vinna þessar úttektir. „Þær hafa verið veittar alveg hiklaust,“ segir Sigríður.

Aðspurð segir hún að afgreiðsla á beiðnunum muni frestast að öllum líkindum til morguns. „Þetta byggir svolítið á niðurstöðu samningafundarins í dag,“ segir Sigríður, en fundur í kjaradeilunni hefst klukkan 13. 

Sigríður tekur ennfremur fram, að beiðnum um alifuglaslátrun hafi einnig verið hafnað, þ.e. öllum beiðnum nema frá Ísfugli.

„Þeir hafa haldið samkomulag um geymslu sem var að þeirra frumkvæði,“ segir hún og bætir við að þetta byggi á heiðursmannasamkomulagi frá þeirra hendi. Þeir fái því að slátra svo þeir missi ekki allar sínar afurðir en setji þæri í geymslu.

Hún tekur hins vegar fram að beiðni Ísfugls hafi sömuleiðis verið frestað á fundinum í takt við svínaslátrunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert