Ósiðlegt að kjaradeilur bitni á sjúklingum

Garðar Mýrdal, yfirmaður geislaeðlisfræðideildar Landspítalans.
Garðar Mýrdal, yfirmaður geislaeðlisfræðideildar Landspítalans. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Þetta er mjög krítískt ástand. Það er undirmannað og margir sjúklingar sem bíða eftir að komast að,“ segir Garðar Mýrdal, yfirmaður geislaeðlisfræðideildar Landspítalans. 

108 geislafræðingar í Bandalagi háskólamanna (BHM) hafa verið í ótímabundnu verkfalli frá 7. apríl og nú hafa fjölmargir sjúklingar orðið fyrir raski á áætlaðri geislameðferð. Biðlistinn lengist stöðugt, og þurfa sjúklingar að bíða í allt að fimm vikur eftir meðferð. 

Garðar segir um viðkvæma meðferð að ræða sem krefjist mikillar nákvæmni. „Mistök eru ekki í boði í þessum meðferðum,“ segir hann og bætir við að með færra starfsfólki aukist álag á hvern og einn og þar með aukist líkur á mistökum. „Það er mikil áhætta fólgin í því að drífa í gegn ákveðna hluti með fáum starfsmönnum. Það er komin mikil þreyta í fólk sem er að starfa.“

Öryggið mjög brothætt

Í verkfallinu starfa tveir geislafræðingar við geislameðferðina, þar sem venjulega eru fimm geislafræðingar að störfum, og tveir í undirbúningi meðferðar, þar sem einnig eru fimm venjulega. Ítrekað hefur þó verið sótt um undanþágu fyrir þriðja geislafræðingnum á hvorum stað, og hefur gengið vel að fá þær í gegn að sögn Garðars.

„Við höfum náð allmörgum sjúklingum í gegn með þessu móti en það vantar samt sem áður starfsmenn. Það bitnar töluvert mikið á fáliðuðu starfsliði og maður horfir með kvíða til þess ef það fækkar ennþá meira ef hjúkrunarfræðingar fara í verkfall,“ segir hann. „Öryggið er mjög brothætt í þessu mannekluástandi.“

Meira álag á færra fólk

Garðar segir ekki nóg með það að færra starfsfólk sé að störfum en venjulega, heldur sé álagið á deildina einnig meira en í eðlilegu árferði. „Á minni deild get ég haldið úti hluta af starfseminni suma daga og forgangsraðað. Við gerum geislaáætlanir einn dag í viku og fjóra daga í viku tökum við sjúklinga inn í röntgen og undirbúning geislameðferðar,“ segir hann og heldur áfram:

„Fyrir utan að vera ekki fullmönnuð skipuleggjum við okkur þannig að starfsfólkið sem er á staðnum nýtist í fleiri en einn verkþátt og meira álag er á það. Þá eru fleiri sjúklingar sem eru afgreidir á hverjum degi en það kallar á mikla árverkni að ekki fari villa þar inn í.“

Við geislameðferðina eru teknar röntgenmyndir á staðnum ef undanþágur eru veittar, en Garðar segir ekki það sama upp á teningnum í annarri starfsemi spítalans. „Þá er það að hafa áhrif á mat lækna á stöðu sjúkdóms ef þeir fá ekki blóðprufur eða röntgenmyndatökur.“

Krítísk meðferð sem ætti að njóta skilnings

Garðar segir ekki hægt að koma starfseminni í eðlileg horf á meðan á verkfallinu stendur, en hjúkrunarfræðingar sem hafa verið að stöfum við meðferðina hafi þó hjálpað mikið til og bjargað því sem bjargað verður. Hann segist því ekki geta ímyndað sér afleiðingar ef það kemur til verkfalls hjúkrunarfræðinga, sem að óbreyttu hefst 27. maí nk.

„Ég sé ekki í gegnum það,“ segir hann. „Maður er í návígi við mjög krítíska meðferð og finnst að hún eigi að njóta meiri skilnings í samfélaginu. Ég tel það ósiðlegt að kjaradeilur komi niður á sjúklingum.“

mbl.is/ÞÖK
Verkfall Félags geislafræðinga hefur áhrif á sjúklinga.
Verkfall Félags geislafræðinga hefur áhrif á sjúklinga. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert