Segir Sigurð hafa játað brotin

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. mbl.is/Árni Sæberg

Með svörum sínum fyrir dómi játaði Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður Kaupþings, þau brot sem hann er ákærður fyrir í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Þetta sagði saksóknari í málflutningi sínum í dag, en hann vísaði til þess að í svörum sínum hefði Sigurður sagt að bankinn hefði tryggt að fólk gæti alltaf selt bréf sín í Kaupþingi og með því hefðu verðmæti fyrirtækisins verið aukið, en aukinn seljanleiki þýði jafnan hærra verð bréfa.

Saksóknari sagðist sammála þessum orðum Sigurðar. Það auki vitaskuld verðmæti bankans að bjóða alltaf upp á að kaupa bréf þegar söluþrýstingur eykst. Sagði saksóknari slíka hækkun þó veita falska eftirspurn og ekki gefa raunverulega verðmat á bréfunum. Sagði hann að með þessu hafi því Sigurður verið að játa brot sitt.

Saksóknari sagði Sigurð og Hreiðar Má Sigurðsson, fv. forstjóra bankans, hafa verið fullkomlega upplýsta um kaup deildar eigin viðskipta í bréfum í Kaupþingi, en meðal annars hafi skýrslur verið sendar reglulega til þeirra. Þá hafi deildin á ákærutímabilinu tapað rúmlega 6 milljörðum sem yfirmenn ættu að vita af.

Í málflutningi sínum vitnaði saksóknari einnig til vitnisburðar Hreiðars fyrir dómnum. Sagði hann Hreiðar hafa lýst því að hér á landi hafi verið of lítil eftirspurn og því hefði bankinn sjálfur skapað rétt markaðsverð. Sagði saksóknari þetta einmitt lýsa háttsemi sem er skilgreind sem markaðsmisnotkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert