Keyra yfir lömb og láta engan vita

Hér má sjá tvö dauð lömb á veginum.
Hér má sjá tvö dauð lömb á veginum. Af Facebook síðu Ernu

„Það er mjög algengt að fólk keyrir á lömb eða kind og keyri síðan bara í burtu án þess að láta vita. Það er afar sjaldgæft að fólk tilkynni það en það er yfirleitt ökumennirnir sem koma að dýrunum dauðum eða slösuðum sem láta vita,“ segir Erna Ósk Guðnadóttir, bóndi í Gufudal í Reykhólahreppi í samtali við mbl.is.

Í Facebook-færslu sem Erna birti í gærkvöldi lýsir hún því hvernig hún kom að tveimur dauðum lömbum á vegi nálægt bóndabæ sínum. Þá var keyrt yfir lömbin og Erna ekki látin vita.

Að sögn Ernu er yfirleitt keyrt á lömb þegar þau eru að hlaupa yfir veginn til mömmu sinnar. „Það gerist þannig í 99% tilvika. Lömbin eru hinu megin við veginn og hlaupa til mömmu sinnar þegar það kemur bíll.“

Erna segir það mikilvægt að láta vita keyri maður á kind eða lamb. „Í fyrra lentum við í því að það þurfti að aflífa eina fullorðna kind því það var keyrt yfir fótinn á hennar sem var byrjaður að úldna. Enginn lét vita og kindin var slösuð úti í haga allt sumarið.“

Þurfa ekki að óttast skammir eða sektir

Hún segir að fólk þurfi ekki að óttast skammir eða sektir keyri það á lömb eða kindur. „Fólk getur einfaldlega hringt í 112 og þá hringir lögreglan og lætur vita. Fólk getur líka hringt bara á næsta bæ og sagst hafa keyrt á lamb eða kind og sá sem fær símtalið lætur réttan bónda vita. Það er alls ekkert mál að koma þessum skilaboðum á réttan stað,“ segir Erna sem segist ekki rukka fyrir þau lömb eða kindur sem drepast, enda er hún tryggð fyrir tjóni sem þessu.

„En ég vill miklu frekar að fólk láti vita en keyri burtu því það er hrætt um að ég rukki það,“ segir Erna. „Þetta er auðvitað alltaf slys. Þar sem ég bý er lausaganga búfjár leyfð og mikið af kindum og lömbum á veginum og við veginn. Við verðum ekkert brjáluð, heldur þökkum bara fyrir að láta vita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert