Veikleikarnir helst í framkvæmdinni

Miklar brotalamir komu fram í sameiginlegri ferðaþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu …
Miklar brotalamir komu fram í sameiginlegri ferðaþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu eftir að Strætó tók við henni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftirlit velferðarráða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með ferðaþjónustu fatlaðs fólks hefði átt að vera meira og formlegra, að sögn Bjarkar Vilhelmsdóttur, formanns velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Helstu veikleikarnir hafi þó verið í framkvæmdinni og hjá þeim sem áttu að stýra henni.

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skilaði skýrslu um yfirtöku Strætó á ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu í gær. Miklar brotalamir á þjónustunni komu fljótlega fram og kom meðal annars upp atvik þar sem bílstjóri gleymdi fatlaðri stúlku í bíl í fleiri klukkustundir. Í skýrslunni er eftirlit velferðarráða sveitarfélaganna meðal annars sagt hafa brugðist og kjörnir fulltrúar hafi ekki staðið vaktina með framgangi yfirfærslu þjónustunnar til Strætó.

Björk segir að velferðarráð Reykjavíkurborgar hafi spurst fyrir um innleiðinguna og fengið þau svör að allt væri í lagi. Það hafi hins vegar aldrei verið gert formlega heldur hafi fulltrúar treyst því að það væri rétt. Ekki hafi verið farið að bóka spurningar varðandi ferðaþjónustunnar fyrr en í janúar þegar þjónustan var komin í uppnám. 

Ekki nógu stífir verkkaupar

Þar sem að Strætó sé byggðasamlag sömu sveitarfélaga og buðu út ferðaþjónustu fatlaðra segir Björk að þau hafi ef til vill ekki verið nógu stífir verkkaupar í þessu tilfelli. 

„Mér finnst að það sé lærdómur sem við sem sveitarfélögum getum tekið hversu mikilvægt það er að kröfulýsingarnar séu mjög skýrar og að við séum í verkkaupahlutverki. Ég get algerlega viðurkennt það að við hefðum átt að vera í meira eftirliti og formlegra eftirliti,“ segir Björk.

Fyrst og fremst telur hún mestu veikleikana hafi verið að finna í framkvæmdinni og hjá þeim sem áttu að stýra henni, bæði stýrihópur félagsmálastjóra og Strætó. Þannig hafi Strætó til dæmis tekið alla reynslu út úr ferðaþjónustu fatlaðra með því að segja upp starfsfólki sem stafaði í þjónustuveri hennar og þróað þjónustuna meira í átt að almenningssamgöngum þó að það hafi hvergi komið fram í neinum samþykktum eða stefnumótun að það væri markmiðið.

„Útboðið var bara um aksturinn. Hver atvinnurekandi bílstjóranna er á ekki að breyta eðli þjónustunnar,“ segir Björk.

Fyrri frétt mbl.is: Skilningsleysi á þörfum notenda

Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs.
Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert