Ástæða til að hafa áhyggjur af þróun íslenskunnar

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Rósa Braga

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, telur ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun íslenskunnar og því eigi málstefna okkar fyllilega rétt á sér.

Þetta kom fram í ávarpi ráðherrans á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem haldinn var í morgun.

Illugi gerði meðal annars að umtalsefni stöðu talsmálsins að hundrað árum liðnum í ljósi þeirrar bjartsýni fólks í upphafi tuttugustu aldar að íslenskan stæði allt af sér, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins.

Þá benti hann á mikilvægi þess starfs sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum innir af hendi, bæði fyrir íslenskt samfélag, og fyrir rannsóknir og varðveislu þess hluta menningararfs heimsins sem íslenskan er.

Í fundarboði sagði meðal annars: „Ný viðfangsefni kalla á nýjan orðaforða og á hverjum degi verða til ný orð sem fanga nýja hugsun og nýjar uppgötvanir. Á fundinum verður rætt um nauðsyn framsýnnar fjárfestingar í íslenskri máltækni og um uppbyggingu rafrænna innviða fyrir íslenska tungu. Íslenskan stendur frammi fyrir spennandi áskorunum í hinum stafræna heimi þar sem enskan hefur óneitanlega yfirburðastöðu. Smíða þarf traust þýðingatól, máltól og talgervla sem hægt er að nota í stýrikerfum, í spjaldtölvum og í snjallsímum“.

Undir liðnum „Íslenska verði nothæf og notuð á öllum sviðum“ voru flutt sjö erindi um stöðu tungumálsins nú á tímum örrar tækniþróunar og var athyglinni meðal annars beint að því mikla sköpunarstarfi sem fer fram í orðanefndum og hjá höfundum sérhæfðra orðasafna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert