Ekki hægt að koma með pakkalausnir

Birnir Sær og verjandi hans Halldór.
Birnir Sær og verjandi hans Halldór.

Það er lykilatriði að tilgreina hvaða viðskipti er verið að ákæra fyrir og ekki hægt að koma fram fyrir dómstóla með pakkalausnir, heldur eru gerðar ríkari kröfur um hvaða brot er verið að ræða. Þessi grunnforsenda stenst ekki í ákæru sérstaks saksóknara í stóra Kaupþingsmálinu. Þetta kom fram í máli verjanda Birnis Sæs Björnssonar, eins ákærða í málinu og fv. starfsmanns eigin viðskipta bankans. Sagði Halldór Jónsson, verjandi Birnis, að Hæstiréttur væri búinn að senda skýr skilaboð um þetta þegar gögn málsins voru metin.

Rökstuðningurinn á ekki við meint brot

Í málflutningi sínum sagði Halldór framsetningu ákæruvaldsins vera með innbyrðis þverstæður og að í raun beindist rökstuðningur þess gagnvart annarri lagagrein en ákært væri fyrir. Sagði hann ákæruvaldið gera mikið úr því að deild eigin viðskipta hjá bankanum hafi ekki mátt kaupa bréf í bankanum, en slíkt ætti allt heima undir lög um fjármálafyrirtæki. Aftur á móti væri ákært fyrir brot á reglum um verðbréfaviðskipti og rökstuðningur í samræmi við það.

Halldór nefndi einnig að eins og ákæran væri sett upp þá væri hún ein órjúfanleg heild. Í ræðu sinni fór hann ítarlega yfir það umhverfi sem deild eigin viðskipta bjó við og þá Kínamúra sem hafi þurft að virða. Fór hann t.a.m. ítarlega yfir hvernig regluvörður og innri endurskoðun hefðu ekki gert athugasemdir við upplýsingaflæði eða starfshætti deildarinnar. Með þetta í huga sagði hann ljóst að starfsmenn eigin viðskipta hefðu ómögulega getað séð yfir Kínamúrana eða verið upplýstir um meinta markaðsmisnotkun í heild og þar með forsendan um að þeir þekktu málið heildstætt brostin.

Forstjórinn gat skrúfað upp magnið

Vitnaði hann í ákæruna og sagði aðra forsendu í henni vera þá að hlutabréfin hafi verið seld í stórum utanþingsviðskiptum. Þetta væri í verkefnalýsingu undir lið 2 í ákærunni, en þetta væri forsenda fyrir verkefnalýsingu í lið 1, þar sem Birnir og aðrir starfsmenn eigin viðskipta hefðu verið ákærðir í. Sagði hann þetta ekki ganga upp, enda hafi það komið skýrt fram við réttarhöldin að starfsmennirnir ákváðu ekki magn þeirra bréfa sem keypt voru. Sagði hann forstjórann, Ingólf Helgason, hafa getað skrúfað magnið upp og niður, allavega upp og að starfsmennirnir hafi ekki haft neitt um það að segja hvernig magnstýringu væri háttað.

Halldór fór einnig yfir samskipti starfsmanna eigin viðskipta við regluvörð og benti á að þeir hafi borið upp áhyggjur sínar af mögulegri markaðsmisnotkun við regluvörð. Svörin hafi verið á þá leið að þeir hafi talið sig fullvissa um að það sem þeir gerðu væri í lagi. Sagði hann að ef dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að um markaðsmisnotkun væri að ræða hafi það átt að vera skylda regluvarðar að koma þessum upplýsingum áleiðis og dómurinn skyldi einnig horfa til þess ef hann kæmist að þeirri niðurstöðu að sakfella þá.

Þungur kross að bera

Þegar kom að því að leggja málið í dóm af hálfu verjandans, fór hann yfir þann langa tíma sem málið hefði tekið, eða fimm ár sem Birnir hefði verið með stöðu sakbornings. Sagði hann málið hafa tekið gífurlega á hann og fjölskyldu hans og hefði verið „gríðarlega þungur kross að bera.“ Þá tiltók Halldór að Birnir hefði ekki valdið neinum töfum, aldrei verið tvísaga í málinu og allan tímann haldið fram sakleysi sínu. Kaupþing hafi verið hans fyrsti vinnustaður eftir háskólanám og því hafi hann komið óharnaður inn í starfið og mótast þar upp og ekki haft neina ástæðu til að halda annað en að haldið væri utan um allt kerfið á réttan hátt. Fór hann fram á vægustu refsingu, skilorðsbundinn dóm eða að fresta refsingu myndi dómurinn telja hann sekan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert