Þurfa að vera á mörgum fundum í einu

Þingflokkur Pírata. Frá vinstri: Jón Þór Ólafsson, Birgitta Jónsdóttir og …
Þingflokkur Pírata. Frá vinstri: Jón Þór Ólafsson, Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson.

„Þingmenn Pírata skipta á milli sín setu í átta fastanefndum auk forsætisnefndar, Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, þingskapanefndar og fleiri nefnda. Á fundatímum fastanefnda eru þingmenn Pírata yfirleitt á einhverjum þeirra funda sem á dagskrá eru. Það er hins vegar allur gangur á því í hvaða fastanefnd þeir sitja í hverju sinni.“

Þetta kemur fram á vefsíðu Pírata vegna fréttar Morgunblaðsins í dag um mætingu þingmanna á nefndarfundi á vegum Alþingis. Þar kemur fram að fundarsókn þingmanna í fastanefndir þingsins á yfirstandandi þingi sé frá 6,7% og upp í 100%. Af þingflokkum á Alþingi mæta Píratar verst samkvæmt upptekt blaðsins. Píratar segja á vefsíðu sinni að þingmenn flokksins eigi erfitt með að mæta á alla nefndarfundi vegna fámennis og skörunar funda. 

„Þannig þarf Jón Þór helst á vera á þremur fundum á sama tíma á mánudags- og miðvikudagsmorgnum; efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, og umhverfis- og samgöngunefnd. Birgitta þarf að vera á tveimur stöðum í einu á þriðjudögum og fimmtudögum; stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og utanríkismálanefnd. Helgi Hrafn er sá eini sem getur mætt í sínar nefndir án árekstra vegna þess hve heppilega fundartímarir raðast, vegna þessa er Helgi Hrafn eflaust með bestu mætinguna af þingmönnunum þremur.“

Píratar segja að þingmenn þeirra fari vandlega yfir allar dagskrár nefndarfunda og forgangsraði hvaða fundi skuli mætt á eftir því hvað sé á dagskránni hverju sinni. Hvað sé líklegast til þess að gera grunnstefnu Pírata að veruleika ráði forgangsröðuninni. Þingmenn flokksins reyni þannig ávallt að að vera viðstaddir fundi þar sem dagskrárliðir hafi snertiflöt við grunnstefnu Pírata, þá annað hvort henni til framdráttar eða ekki.

„Forgangsröðun á tíma þingmannana er flókið verkefni þar sem þeir eru bara þrír og því ógerlegt að mæta allstaðar. Þingmennirnir hafa t.d. lagt áherslu á að vera duglegir að hitta fólk sem til þingmannana leita með hin ýmsu mál eða fólk sem býr yfir þekkingu sem þingmennirnir þurfa að afla sér. Píratar eru vandlátir á tíma sinn og er mikið í mun að forgangsraða rétt til að ná sem mestum árangri. Ekkert bendir til að þingmenn Pírata standi ekki undir þeim markmiðum.“

Frétt mbl.is: Píratar mæta verst

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert