15 hnúfubakar í Skjálfandaflóa

Hnúfubakar á Skjálfandaflóa í gær.
Hnúfubakar á Skjálfandaflóa í gær. ljósmynd/Hörður Jónasson

Fimmtán hnúfubakar sáust í Skjálfandaflóa í gær, og segir Hörður Jónasson, sem sigldi með Norðursiglingu frá Húsavík, að það hafi verið ótrúleg upplifun. „Þetta er tíminn sem hvalurinn er að koma frá Karíbahafi og það er greinilegt að það er að koma vor,“ segir hann.

Þrjú hvalaskoðunarfyrirtæki eru á Húsavík og eru nú farnar 13 til 15 ferðir á dag. Að sögn Harðar eru bílaleigubílar, rútur og hópar mættir á höfnina klukkan níu á morgnanna og mikil eftirspurn er eftir ferðum af þessu tagi. Þegar mest láti séu farnar allt að 30 ferðir á dag, en hver ferð tekur um tvo og hálfan til þrjá tíma. Yfir sumarið séu yfirleitt rúmlega hundrað manns í vinnu við ferðir af þessu tagi.

Hörður segir hnúfubaka synda tveir til þrír saman, og stundum séu hnísur með í för. Krían vísi svo oft á þá þar sem hún fylgist grannt með ferðum þeirra. „Það er gaman að fylgjast með kríunni því hún veit hvar hvalurinn kemur upp og sér hann á undan okkur. Hún er alltaf að leita sér að æti og þegar svif síast út um kjaftinn á hvalnum og kemur upp á yfirborðið tekur krían það.“

Hörður segir töluvert vera um lunda á svæðinu líka og því sé sannarlega mikið líf í flóanum.

Talið er að stofn hnúfu­baka á Íslands­miðum um 15 þúsund dýr og hef­ur stærð hans átt­fald­ast frá því á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar. Hnúfu­bak­ur étur um eitt tonn á sól­ar­hring og má því ætla að stofn­inn hér við land éti alls um 15 þúsund tonn á sól­ar­hring af átu, sandsíli, loðnu, síld, mak­ríl og öðrum teg­und­um mis­jafnt eft­ir árs­tím­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert