Aldrei meiri arður af auðlindunum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að aldrei í Íslandssögunni hafi meiri tekjur skilað sér af auðlindum landsins beint og óbeint í ríkissjóð en um þessar mundir. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn á Alþingi um áhrif misskiptingar auðs í samfélaginu á kjaraviðræður.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi vitnaði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, til orða ríkissáttasemjara um að pólitískar deilur, þ. á m. um misskiptingu í samfélaginu og hvernig arði af auðlindum væri skilað til almennings, hefðu áhrif á stöðu kjaraviðræðna. Spurði hún fjármálaráðherra hvað hann teldi um þessi orð ríkissáttasemjara.

Fjármálaráðherra sagði að hvað auðlindirnar varðaði hafi aldrei meiri tekjur af sjávarútvegi og orkunýtingu skilað sér til ríkissjóðs með beinum og óbeinum hætti. Hvað það varðaði að auka sanngirni í samfélaginu og hvað ríkisstjórnin gæti gert í þeim efnum benti Bjarni á að þessi ríkisstjórn hefði lagt bankaskatt á fjármálafyrirtæki, þ. á m. slitabú, umfram það sem fyrri ríkisstjórn hefði gert.

Þá spurði Katrín hvort að fjármálaráðherra þætti það eðlilegt að 10% af íbúum landsins ættu 70% af auðnum í samfélaginu og hvort hann teldi að jöfnuðu væri þá orðinn of mikill.

Bjarni sagði að skipun mála um nýtingu auðlinda ættu ekki erindi inn á borð ríkissáttasemjara og hann tryði ekki að hann hafi meint að tekist væri á um það við samningaborðið. Þá hefði hann sjálfur aldrei sagt að jöfnuður væri of mikill. Hann hafi aðeins vísað til skoðunar einstakra stéttarfélaga um sumum stéttum sé ekki umbunað í samræmi við það sem þær hefðu lagt á sig í námi. Hægt hefði verið að draga þá ályktun að of mikill jöfnuðu væri af þeim kröfum. Benti Bjarni jafnframt á að á Íslandi væri þegar einn mesti jöfnuður í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert