Dæmdur fyrir vörslu barnakláms

AFP

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann á sjötugsaldri í fimmtán mánaða fangelsi, þar af tólf mánuði skilorðsbundið, fyrir vörslur á barnaklámi. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða 1,2 milljónir kr. í sakarkostnað.

Ríkissaksóknari ákærði manninn í lok janúar fyrir kynferðisbrot, með því að hafa í febrúar 2013, og um nokkurt skeið haft í vörslum sínum samtals 34.837 ljósmyndir og 585 hreyfimyndir, er sýna börn, eða fullorðna einstaklinga í hlutverki barna, á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi. Hann hefur ekki áður verið dæmdur til refsingar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi kannast við að hafa haft í vörslum sínum þá muni sem ætlaðar barnaklámmyndir fundust á en kveðst ekki muna eftir þeim öllum. Þá hafi ásetningur hans ekki staðið til þess að vera með barnaklámefni í vörslum sínum. Þeir diskar sem hann hafi verið með í umráðum sínum séu frá öðrum komnir, gegnum eBay eða til viðgerðar. Um sé að ræða gáleysi og verði honum ekki refsað fyrir það. Hann byggir vörn sína á því að ekki sé um barnaklámefni að ræða í skilningi hegningarlaga, myndanna hafi ekki verið aflað í kynferðislegum tilgangi og hann hafi ekki í öllum tilvikum verið meðvitaður um að efnið væri varslað í tölvubúnaði hans.

Maðurinn hélt því fram fyrir dómi að stór hluti efnisins falli undir efni sem kalla mætti „nudist“ og sé þar bæði um að ræða íslenskar og erlendar myndir, bæði ljósmyndir og hreyfimyndir, t.d. teknar á baðströnd og sýni bæði börn og fullorðna að leik eða uppstillt. Þetta taldi hann ekki vera barnaklámefni.

Sekur um stórfellt brot

Það er hins vegar mat dómsins að maðurinn hafi haft vörslur þess efnis sem lýst sé í ákæru og það efni telst vera barnaklám í skilningi almennra hegningarlaga. Það sé því hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi gerst sekur um vörslur á barnaklámi. Þá segir að maðurinn hafi gerst sekur um stórfellt brot, enda hluti þessa mikla magns sem fannst hafi verið mjög gróft efni. 

Þá kemur fram, að rannsókn málsins hafi hafist í febrúar 2013 og um tveimur árum seinna, 30. janúar 2015, hafi verið gefin út ákæra vegna málsins. Dómari segir að gera verði þá kröfu að meðferð mála sem þessara hjá lögreglu og ákæruvaldi verði lokið á mun skemmri tíma. Ákærða verði á engan hátt kennt um það hversu langan tíma málsmeðferðin tók.

Dómstóllinn gerði myndefnið og tölvubúnað upptækan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert