Dómur mildaður fyrir árás manns á unnustu sína

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur mildaði í dag dóm yfir manni sem beitti þáverandi unnustu sína ofbeldi. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í 16 mánaða fangelsi en Hæstiréttur mildaði dóminn í 12 mánaða fangelsi, þar af níu skilorðsbundnir.

Árásin átti sér stað þann 29. október 2012. Maðurinn skellti höfði konunnar í gólfið þannig að hægri hluti andlits hennar lenti á gólfinu. Hann hélt henni svo niðri og sparkaði í auga hennar, íklæddur skóm. Þá tók hann í hár hennar og henti henni á rúmið. Hæstiréttur lýsir árásinni sem sérstaklega hættulegu þegar litið er til þeirrar aðferðar sem beitt var við ofbeldið.

Hinn dæmdi maður krafðist þess fyrir Hæstarétti að dómur Héraðsdóms yrði ómerktur þar sem hann hafi átt að vera fjölskipaður. Þessu hafnaði Hæstiréttur og tók málið til meðferðar.

Maðurinn þarf að greiða allan málskostnað auk rúmar 911 þúsund krónur til brotaþola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert