Finnið villurnar

Einar Pálmi ásamt verjanda sínum Gizuri Bergsteinssyni. Gizur bað viðstadda …
Einar Pálmi ásamt verjanda sínum Gizuri Bergsteinssyni. Gizur bað viðstadda um að finna villur í ákæru saksóknar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Viðstaddir í réttarsal í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings voru í dag beðnir um að fara í leik og finna villur í gögnum saksóknara í málinu. Verjandi ákærða, Einars Pálma Sigmundssonar, sagði í málflutningi sínum að það væri ótrúlegt að sjá ákveðinn grundvallar misskilning í rökstuðningi með ákæru málsins og sagði að þetta væri eins og leikurinn að finna fimm villur. Setti hann upp tvær málsgreinar úr ákærunni og sagði viðstöddum að finna þær þrjár villur sem þar væri að finna.

Textinn sem Gizur Bergsteinsson, verjandi Einars, setti upp var eftirfarandi: „Á sænska markaðnum var þróun á gengi Kaupþings og viðskiptaháttsemi EVK með svipuðu sniði og á þeim íslenska. Tekið skal fram að þegar tölur varðandi sænska markaðinn eru skoðaðar þarf að taka tillti til breytinga á gengi íslensku krónunnar á tímabilinu.“

Gizur sagði að fyrsta málið væri augljóst, en þar væri tekið fram að þróun á gengi Kaupþings hafi verið með svipuðu sniði á Íslandi og í Svíþjóð. Með því að skoða gögn málsins væri þó ljóst að það væri fjarri sannleikanum. Bréfin hefðu lækkað mun meira í Svíþjóð. Sagði hann þetta skýrast af því að gengislækkun íslensku krónunnar hafa leitt til minni lækkunar hér á landi og á stundum jafnvel hækkun. Þarna gæti því grundvallarmisskilningi hjá ákæruvaldinu.

Önnur villan var svo þegar saksóknari bendir á að taka þurfi tillit til breytinga á gengi íslensku krónunnar. Sagði Gizur að þegar þetta væri sett í samhengi við fyrri setninguna þá kæmi í ljós að saksóknari hefði endaskipti á hlutunum. Sú gengislækkun sem varð á krónunni á tímabilinu orsaki það að þróun gengis í Kaupþingsbréfunum gat aldrei orðið sú sama á markaði í Svíþjóð og á Íslandi. Sagði hann þetta sérstaklega villandi þegar gengisbreytingar viðskiptabankanna hér á landi væru bornar saman.

Gizur kom í máli sínu ekki inn á þriðju villuna, en þegar blaðamaður innti hann eftir henni  sagði Gizur að það væri ákæruvaldsins að benda á hana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert