Hettusótt greinist á Íslandi

Landlæknisembættið minnir á mikilvægi bólusetninga.
Landlæknisembættið minnir á mikilvægi bólusetninga. mbl.is/KRISTINN INGVARSSON

Aukning virðist á hettusótt á Íslandi þessa dagana. Síðustu vikur hefur hettusótt verið staðfest hjá fjórum einstaklingum og 25 sýni bíða staðfestingar á veirurannsóknardeild Landspítalans. Vegna verkfalla hefur ekki tekist að greina sýnin sem liggja fyrir og því er erfitt að fá nákvæma greiningu á yfirstandandi faraldri.

Þeir sem hafa greinst með hettusótt eru fullorðnir einstaklingar sem hafa ekki verið bólusettir. Vegna þess að nákvæm greining hefur ekki fengist á faraldrinum er bólusetning eina örugga leiðin til að forðast sjúkdóminn. 

Hettusótt er mjög smitandi veirusýking sem leggst oftar á börn en fullorðna. Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum. 

Einkenni sjúkdómsins eru oftast væg hjá börnum en leggjast þyngra á unglinga og fullorðna. Helstu einkenni eru hiti, slappleiki, bólga og særindi í munnvatnskirtlum, höfuðverkur, erfiðleikar við að tyggja og lystarleysi.

Unglingar og fullorðnir fá frekar fylgikvilla en börn. Alvarlegir fylgikvillar geta verið, heilabólga, heyrnarskerðing, bólga í brjóstum, briskirtli, eggjastokkum eða eistum. Bólga í síðast töldu líffærunum getur valdið ófrjósemi.

Embætti landlæknis minnir á að litlir faraldrar eins og þessi undirstriki mikilvægi bólusetninga. Hér á landi er bólusett gegn hettusótt við 18 mánaða og 12 ára aldur með bóluefni sem inniheldur auk þess bóluefni gegn mislingum og rauðum hundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert