Lögreglan fylgist grannt með

Leigubílstjórar hafa gert athugasemdir við þá sem auglýsa á samfélagsmiðlum …
Leigubílstjórar hafa gert athugasemdir við þá sem auglýsa á samfélagsmiðlum að aka fólki gegn gjaldi. Lögreglan segist fylgjast grannt með, enda verði menn að hafa tilskilin leyfi. mbl.is/Jim Smart

Borið hefur á því að einstaklingar auglýsi upp á sitt eindæmi þjónustu á samfélagsmiðlum þar sem þeir bjóðast til að aka fólki gegn gjaldi, einkum að næturlagi um helgar. Leigubifreiðastjórar hafa gagnrýnt þetta og óskað eftir viðbrögðum. Lögreglan fylgist grannt með.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að ökumenn sem aki fólki gegn gjaldi þurfi að hafa ökuréttindi til þess, sbr. ákvæði umferðarlaga sem og leyfi samkvæmt lögum um leigubílaakstur.

„Lögreglan fylgist með og kannar hvorutveggja reglulega,“ segir Ómar.

Hann segir ennfremur, að lögreglan fylgist einnig með auglýsingum þeirra sem gefi sig út fyrir slíkan akstur á samfélagsmiðlunum. Fáist það staðfest að tilskilin leyfi séu ekki fyrir hendi sé lögreglan í samvinnu við skattayfirvöld sem muni þá krefja viðkomandi skýringa á verktökunni.

Venjulega, þegar nefndum einstaklingum er bent á gildandi reglur í þessum efnum, beri þeir við fáfræði og lofa bót og betrun.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert