Máttu segja upp stýrimanni sem féll á vímuefnaprófi

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum mátti segja upp sjómanni sem féll á …
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum mátti segja upp sjómanni sem féll á vímuefnaprófi. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vinnslustöðin í Vestmanneyjum mátti reka stýrimann á skipi úr starfi eftir að hann féll á vímuefnaprófi sem fyrirtækið lét hann taka. Stýrimaðurinn krafðist skaðabóta af fyrirtækinu vegna brottvikningarinnar en Hæstiréttur hefur nú staðfest dóm héraðsdóms um að hún hafi verið lögmæt.

Forsaga málsins er sú að maðurinn var 1. stýrimaður á skipi Vinnslustöðvarinnar. Fyrirtækið lét hann gangast undir vímuefnapróf þegar skipið kom í land í byrjun febrúar 2013 sem hann gaf samþykki sitt fyrir. Fundust kannabisefni í þvagi hans. Í kjölfarið var stýrimanninum sagt upp fyrirvaralaust í kjölfarið.

Í reglum Vinnslustöðvarinnar kom fram að vinnustaðurinn væri vímuefnalaus og brot á því varðaði brottrekstur án viðvörunar.  Maðurinn krafðist engu að síður bóta af Vinnslustöðinni fyrir Héraðsdómi Suðurlands en fyrirtækið var sýknað af þeirri kröfu.

Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu í dag. Stýrimaðurinn hafi sjálfur samþykkt að gangast undir vímuefnaprófið og hann hafi staðfest niðurstöðu þess. Hann hafi verið óhæfur til að gegna því starfi sem hann var ráðinn til. Því hafi Vinnslustöðinni verið heimilt að segja honum upp fyrirvaralaust án launa í uppsagnarfresti samkvæmt þeim reglum sem fyrirtækið hafði sett og stýrimaðurinn gengist undir af fúsum og frjálsum vilja. 

Dómur Hæstaréttar í málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert