Sameining Tækniskólans og Iðnskólans í vinnuferli

Tækniskólinn í Reykjavík.
Tækniskólinn í Reykjavík. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Mennta- og menningamálaráðuneytið telur ekki rétt að fyrirætlanir um sameiningu Tækniskólans og Iðnskólans feli í sér lögbrot. Aðgerðir sem þessar, þ.e. sameiningar stofnana eiga sér upphaf, vinnuferli og lokapunkt. Sameining Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði er nú í vinnuferli. Það hefur allt tíð legið fyrir að því lýkur með aðkomu Alþingis við gerð fjárlaga.

Ráðherra mun því leggja til  að fjárheimildir verði fluttar á milli stofnana í samræmi við ákvæði viðeigandi laga um framhaldsskóla og laga um fjárreiður ríkisins enda fellur það undir yfirstjórnunarheimildir ráðherra að undirbúa þær breytingar sem Alþingi mun síðar fá til umfjöllunar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna frétta um sameiningu skólanna. Tekur ráðuneytið einnig fram að mikilvægt sé að missa ekki sjónar á því að það standi ekki til að leggja af iðnnám í Hafnarfirði. Verið sé að bregðast við erfiðri stöðu framhaldsskóla, ætlunin sé að hagræða og það muni skila sér í öflugu iðnnámi, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.

Nemendur og kennarar Iðnskólans í Hafnarfirði hafa mótmælt sameiningunni harðlega. Telja þeir að það sé verið að setja framtíð nemenda og kennara í mikla óvissu, sem sé ólíðandi. 

Fyrri fréttir um málið:

Nemendur og kennarar Iðnskólans í Hafnarfirði mótmæla sameiningu.

Fastráðnum boðið starf við Tækniskólann.

Meirihluta nemenda Iðnskólans andvígur sameiningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert