Þagnarmúr um Hæstarétt

Andrúmsloftinu í Hæstarétti lýsti Jón Steinar í bók sinni sem …
Andrúmsloftinu í Hæstarétti lýsti Jón Steinar í bók sinni sem kom út í fyrra. mbl.is/Styrmir Kári

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands flutti í gær erindi í Háskólanum í Reykjavík. Yfirskrift erindisins var Hæstiréttur – Hvað er að og hvað þarf að gera til úrbóta?

Jón Steinar hóf erindið á umfjöllun um mikið álag á Hæstarétt og hvernig hann teldi það koma niður á gæðum vinnubragða dómara.

„Ástandið hefur farið stöðugt versnandi, ekki bara með árunum heldur áratugunum. Á árunum 2013 og 2014 voru ný mál á níunda hundrað og á árinu 2014 voru kveðnir upp 760 dómar í Hæstarétti Íslands. Í 695 málum sátu þrír dómarar eða í yfir 90% af öllum málunum sem voru dæmd á árinu. Þetta þýðir að einstakir dómarar í hverju máli hafa verið að dæma í allt að 350 dómsmálum. Dómari sem dæmir 350 mál yfir árið er að meðaltali að dæma í tveimur málum á hverjum einasta starfsdegi ársins,“ sagði Jón Steinar.

Lögfræðileg samviska dómara

Um andrúmsloftið í Hæstarétti sem Jón Steinar hefur áður lýst, m.a. í bók sinni sem kom út í fyrra, sagði hann í erindi sínu að líkja mætti við fjölskyldustemningu. Afstaða dómara til hvers þeir vilja fá til liðs við sig mótist af því hverja þeir vilja fá í fjölskylduna. Sjálfur hafi hann ekki viljað taka þátt í fjölskyldustemningunni og fyrir vikið verið óvinsæll á meðal annarra dómara.

„Í fjölskipuðum dómi eiga menn að vinna vel saman og ef það er uppi ágreiningur eða mismunandi sjónarmið um lagaatriði þá eiga menn að ræða þau í botn og skilja hvar ágreiningurinn liggur. En ef hann jafnast ekki og maður er áfram með aðra skoðun en hinir, hvaða skyldu hefur maður þá? Að skila sératkvæði auðvitað. Á maður að fara að greiða atkvæði gegn sinni eigin lögfræðilegu samvisku?“ Í því væri fólgin hin brýna verkskylda sem á öllum dómurum hvíldi. „Þetta ætti að vera augljóst en þetta er ekki svona,“ sagði Jón Steinar. Hann sagði ennfremur að lögfræðingar væru oft hræddir við dómstólinn og bentu því ekki alltaf á þegar annmarkar væru á störfum dómara, til dæmis þegar lögmenn fengju ekki þann tíma sem þeir þyrftu til málflutnings heldur væri þeim skammtaður tími af dómurum sem hefðu of mikið að gera. „Sá sem er að misbeita valdi, hann gerir það frekar gegn aðilum sem þegja alltaf þunnu hljóði þegar það er gert.“ 

Aðferð þagnarinnar

Um ástæður þess að fáar gagnrýnisraddir hafi heyrst um störf Hæstaréttar sagði Jón Steinar að rammgerður þagnarmúr væri um Hæstarétt. „Aðferð þeirra sem sitja þarna og stjórna þessu er aðferð þagnarinnar. Þeir leggja ekkert í að segja það sem satt er og þá skal þagað og vonast til þess að þetta deyi nú út.“ Jón Steinar sagði ljóst að hið mikla álag á dómstólinn þyrfti að ræða, annars yrði ósamræmi í óvönduðum dómum. „Það virðist ekkert taka dagskipuninni fram. Sjáiði Al Thani-dóminn, bara sem dæmi um þetta. Sextán dögum eftir málflutning í því máli þá er kveðinn upp fimm núll dómur í Hæstarétti upp á 110 blaðsíður. Halda menn að þetta sé dómur sem sé skrifaður með þeim öguðu vinnubrögðum sem þarf til að skrifa dóma og komast að dómsniðurstöðu? Þessi dómur er stórkostlega gallaður að mínu mati. Ég er bara að tala um vinnubrögðin og forsendurnar.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert