Fá aðeins það sem SA leggur fram

Fjölmennt var á fundi stjórnar BHM með félagsmönnum í Rúgbrauðsgerðinni …
Fjölmennt var á fundi stjórnar BHM með félagsmönnum í Rúgbrauðsgerðinni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég veit það eitt að þegar við fórum út af síðasta fundi þá sögðum við að við sæjum ekki ástæðu til að funda ef ríkið hefði ekkert fram að færa, að endurtaka sömu ræðurnar hér. Ríkið verður að koma með eitthvað,“ segir Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna, í samtali við mbl.is eftir fjölsóttan baráttufund félagsins í Rúgbrauðsgerðinni í hádeginu.

Ríkissáttasemjari boðaði til fundar kl. 15 í dag í húsi ríkissáttasemjara. Á baráttufundinum í dag var farið yfir stöðu mála í kjaradeilunni og sagði Páll meðal annars að í dag væri ekki hægt að tala um að BHM hefði samningarétt. 

Frétt mbl.is: Um 500 manns á fundi BHM

Hafa ekki áhyggjur af verkfallsgreiðslum

Því hefur verið fleygt að ekki standi til að semja við BHM fyrr en samið hefur verið við félög á almennum vinnumarkaði.

„Við erum búin að prófa þetta í báðar áttir, við þekkjum það. Málið snýr að því að við erum með okkar samningsrétt og við fylgjum honum eftir með löglegum aðgerðum. Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut ef menn semja ekki við okkur ef það eru einhverjar kenningar um röð vegna þess að hér hefur skapast grafalvarlegt ástand sem verður að leysa,“ sagði Páll.

Aðspurður um hvort forsvarsmenn BHM séu farnir að hafa áhyggjur af því að geta ekki greitt félagsmönnum laun úr verkfallssjóðum segist Páll ekki hafa áhyggjur af því, það sé aðeins verkefni sem verði að leysa. Á bar­áttufund­in­um færði Árni Stefán Jóns­son, formaður SFR, BHM 15 millj­ón­ir króna úr vinnu­deilu­sjóði fé­lags­ins.

Það sem SA dettur í hug þann daginn

Páll sagði á fundinum að lengi vel hefðu samtökunum verið boðin 3,5% hækkun. Samtökin hefðu komið fram með ýmsar hugmyndir, tilboð og útfærslur en fengu alltaf sama svar. „Kröfur okkar hafa alltaf verið skýrar, að launakerfi ríkisins verði lagað að þörfum háskólamenntaðra starfsmanna,“ sagði Páll.

Einn daginn lögðu Samtök atvinnulífsins fram tilboð og þá breyttist eitthvað, sagði Páll. „Það sem gerðist var að ríkið kom með tilboð sem var eins og samið upp úr tilboði SA, þó með nokkrum breytingum.“ Tilboð ríkisins til BHM nær til ársins 2018.  

„Enn stöndum við í þeim sporum að mæta til funda og mæta því einu sem SA hefur dottið í hug þann daginn. Ef niðurstaðan er sú að þrátt fyrir sex vikna verkfall sé ekki um annað að ræða en að skrifa undir eitthvað sem SA hefur samið er ekki hægt að tala um að við höfum eitthvað sem heitir samningaréttur,“ sagði Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert