Hanna Birna: „Er hálf miður mín“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi. mbl.is/Eggert

„Ég verð að viðurkenna það - ég hef ekki áður setið hér sem óbreyttur þingmaður - og ég er hálf miður mín yfir því að upplifa það sem ég upplifi hér á hverjum einasta degi,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um störf þingsins.

Vandamálið sem Alþingi standi frammi fyrir væri mun stærra en það sem síðustu dagar hefðu farið í að ræða, en hún vísar í síðari umræðu um rammaáætlun, sem stjórnarandstaðan vill taka af dagskrá til að ræða önnur og brýnni mál.

„Mér hefur lengi þótt, og sú afstaða mín hefur ekkert breyst frá því ég fór úr borgarstjórn Reykjavíkur og kom inn á Alþingi, að stjórnmálin verði að breytast. Og þau breytast ekki nema við breytumst hér,“ sagði Hanna Birna.

„Mér finnst þetta mál sem við höfum verið að ræða hér að undanförnu endurspegla ákveðna átakamenningu sem þurfi að hverfa. Ég hef talað fyrir því í mörg, mörg ár,“ sagði hún. 

Hanna Birna viðurkenndi að vonir hennar og væntingar til þess að ná árangri í þeirri baráttu hefðu ekki aukist að undanförnu. „Ég hef kannski rekið mig á þann harða veruleika að raunveruleikinn er flóknari heldur en draumurinn um það að gera hlutina öðruvísi.“

Hanna segir að þingmenn verði að breyta sínum hugsunarhætti til að umræðumenningin á þingi breytist til batnaðar. „Við tökumst hér á dagsdaglega um hver gerði hvað og hver sagði hvar, hvenær og hvers vegna. Og það er myndin sem almenningur sér af þinginu og þess vegna stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, ágætu félagar, að þjóðin skilur ekki þingið,“ sagði Hanna Birna og bætti við: „það er við okkur öll að sakast.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert