Þinglokum frestað

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forseti Alþingis tilkynnti um breytta starfsáætlun þingsins þegar þingfundur hófst að nýju nú kl. 14. Ómögulegt væri að halda starfsáætlun við núverandi aðstæður. Síðasta þingfund þessa þings átti að halda í næstu viku en nú er ljóst að þingað verður fram á sumar.

Breytingin á starfsáætlun þingsins var samþykkt í forsætisnefnd Alþingis í hádeginu og tilkynnti Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, um hana þegar þingfundur hófst aftur kl. 14. Þrátefli hefur ríkt í þinginu undanfarna viku eftir að breytingar á rammaáætlun voru settar á dagskrá. Stjórnarandstaðan hefur haldið uppi málþófi til að koma í veg fyrir að síðari umræðu um þær verði lokið og ítrekað borið upp tillögur um að taka málið af dagskrá.

Forseti sagði að miðað við núverandi stöðu væri ekki hægt að gera ráð fyrir að hægt yrði að ljúka verkefnum þingsins í næstu viku eins og til stóð. Auk rammaáætlunar biðu mörg önnur mál afgreiðslu, þar á meðal þingmál sem fjármálaráðherra hefði boðað sem varðaði gjaldeyrishöft. sem fyrirséð að taki langan tíma.

Treysti forseti sér ekki til að segja til um hvenær þinglok yrðu en ljóst væri að eldhúsdagur sem átti að vera á miðvikudag í næstu viku yrði frestað sem muni eflaust hryggja sjónvarpsáhorfendur um allt land.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert