Bláklædd landnámskona til sýnis

Gestum fannst sýningin afar áhugaverð, og voru nokkrir jafnvel æstir …
Gestum fannst sýningin afar áhugaverð, og voru nokkrir jafnvel æstir að sögn Freyju. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er sýning á jarðneskum leifum konu sem var grafin upp árið 1938,“ segir Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir hjá Þjóðminjasafninu en leifarnar af konunni sem til sýnis eru, eru einstakar á margan hátt.

„Árið 1938 fundu vegagerðarmenn brot úr höfuðkúpu og nælu úr kopar nálægt Litlu-Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Þjóðminjavörður var kallaður til og í ljós kom að um merka kvennmannsgröf frá víkingaöld var að ræða. Beinagrindin hafði varðveist illa, nema vinstri vangi konunnar, þó vel mætti sjá hvernig konan hafði verið lögð til hvílu ásamt haugfé í gröfinni. Snertingin við koparnæluna kom í veg fyrir að hold vangans rotnaði en slík varðveisla í jörðu er einstök á Íslandi og afar sjaldgæf í heiminum. Strax eftir uppgröft var kjálka konunnar og holdsleifunum komið fyrir í formalínlausn sem tryggði varðveislu þeirra allt til dagsins í dag.“ Svo hefst lýsingin á sýningunni „Bláklædda konan,“ sem hófst í dag í Þjóðminjasafninu.

„Á síðasta ári var ákveðið að skipta út kjálkanum og holdinu sem varðveitt hafði verið í formalíni. Það er einstakt hér á landi og mjög sjaldgæft úti í heimi að það varðveitist hold í jörðu. Það þekkist aðallega þegar lík geymast í sífrera eða í mýri en ekki í jörðu.“

„Ástæðan fyrir því að lík konunnar varðveittist svo vel var að hún var grafin með tvær kúptar brjóstnælur úr kopar. Önnur nælan lendir svo undir kinninni á henni. Þegar koparinn tærist þá er hann svo eitraður að hann drepur þær örverur sem leiða til rotnunarinnar. Umhverfið verður einfaldlega svo eitrað að holdið nær ekki að rotna,“ segir Freyja.

Einnig varðveittist hluti af klæði konunnar, sem einnig er óvenjulegt. „Nælunum var nælt í gegnum klæði hennar og því varðveittust líka leifar af klæðinu, því koparinn er svo eitraður.“

„Nördískt“ verkefni sem hlóð utan á sig

„Formalínið sem konan var sett í árið 1938 var farið að gufa upp. Þegar við fórum að skipta um formalín í fyrra þá kviknaði sú hugmynd að gera eitthvað meira við þetta og mannbeinafræðingur og textílfræðingar sem voru að vinna hjá okkur fóru að skoða þetta og mynd fór að byggjast upp um þessa konu. Í framhaldinu var önnur tönnin úr henni sem ekki var sett í formalín send til útlanda til greininar og þá fengum við ýmsar upplýsingar til viðbótar.“

„Þetta var því í upphafi smá nördískt verkefni hjá okkur sem hlóð utan á sig og úr varð þessi sýning. Til stendur svo að halda málþing um þetta í haust.“

Að sögn Freyju höfðu gestir Þjóðminjasafnsins í dag mikinn áhuga. „Sumir voru alveg æstir yfir þessu,“ segir Freyja að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert