Hannyrðakona sem gaf kirkjunni heklað verk

Guðríður Guðbrandsdóttir er 109 ára. Hún hefur verið býsna hress …
Guðríður Guðbrandsdóttir er 109 ára. Hún hefur verið býsna hress undanfarið þrátt fyrir háan aldur.

Guðríður Guðbrandsdóttir er 109 ára gömul í dag og er elsti núlifandi Íslendingurinn. Hún er jafnframt fjórða elsta íslenska konan. Guðrún Björnsdóttir varð tæplega 110 ára gömul eða 109 ára og 310 daga. Önnur elsta konan var Sólveig Pálsdóttir en hún náði 109 ára aldri auk 69 daga. Þriðja elsta konan, Guðfinna Einarsdóttir, var 109 ára og 58 daga þegar hún lést.

Guðríður hefur verið býsna hress það sem af er afmælismánuðinum en um þessar mundir er hún í hvíldarinnlögn á elliheimilinu Grund. Hún býr í þjónustuíbúð í Furugerði 1 og hefur búið þar frá árinu 1978. Þar hefur henni liðið einstaklega vel, að sögn ættingja.

Guðríður fæddist á Spágilsstöðum í Laxárdal í Dölum hinn 23. maí 1906, dóttir bændanna Sigríðar Margrétar Sigurbjörnsdóttur og Guðbrands Jónssonar. Guðríður átti tíu systkini og eru þau nú öll látin en Guðríður var sú sjötta í röðinni.

Árið 1932 giftist hún Þorsteini Jóhannssyni sem síðar varð verslunarmaður í Búðardal og Reykjavík.

Guðríður og Þorsteinn settust að í Búðardal og bjuggu þar til ársins 1953, að þau fluttu búferlum til Reykjavíkur. Þorsteinn lést 1985.

Dóttir þeirra var Gyða, en hún lést árið 2000, 58 ára að aldri. Fósturbörn Guðríðar og Þorsteins voru Sigurður Markússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Reykjavík, og Halldóra Kristjánsdóttir, húsfreyja í Kópavogi, en þau eru bæði látin.

Guðríður var mikil hannyrðakona þar til fyrir nokkrum árum að sjónin fór að daprast. Verkin hennar eru í formi mynda, dúka og rúmteppa og prýða heimili afkomenda hennar og annarra víða um land. Þegar hin gamla sóknarkirkja Guðríðar í Hjarðarholti í Dölum var endurvígð eftir miklar endurbætur gaf hún kirkjunni stóra heklaða mynd eftir sig af síðustu kvöldmáltíðinni.

Guðríður er gædd frábæru minni og vílar ekki fyrir sér að fara utanbókar með þulur og kvæði sem hún lærði á yngri árum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert