Verkföllin munu hafa víðtæk áhrif í borginni

Frá baráttufundi BHM í Rúgbrauðsgerðinni í gær.
Frá baráttufundi BHM í Rúgbrauðsgerðinni í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hætt er við því að yfirvofandi verkföll muni hafa margvísleg áhrif á starfsemi Reykjavíkurborgar. Meðal þess sem nefna má er að líkur eru á því að heimahjúkrun muni liggja niðri, ekkert verði þrifið í fjölda opinberra bygginga og loka verði sundlaugum í Reykjavík. Þetta kom fram á minnisblaði sem lagt var fram á fundi borgarráðs í fyrradag um möguleg áhrif yfirvofandi verkfalla á starfsemi Reykjavíkurborgar. Ef ekki semst hefst verkfallahrinan miðvikudaginn 27. maí með verkfalli hjúkrunarfræðinga en að óbreyttu hefst svo ótímabundið allsherjarverkfall 6. júní.

Áhrif á fatlaða og aldraða

Í minnisblaðinu eru áætluð áhrif verkfalls á öllum fimm sviðum borgarinnar auk áhrifa á fjármálaskrifstofu og skrifstofu reksturs og þjónustu. Þannig stefnir í að 22 hjúkrunarfræðingar sem starfa undir velferðarsviði við heimahjúkrun leggi niður störf 27. maí þegar hjúkrunarfræðingar ríkisins hafa boðað verkfall. Þá eru bílstjórar hjá ferðaþjónustu fatlaðra í verkalýðsfélaginu Hlíf sem hefur boðað til verkfalls.

Á skóla- og frístundasviði segir m.a. í minnisblaðinu að samkvæmt upplýsingum frá Strætó geti verkfall haft áhrif á skólaakstur fatlaðra nemenda, akstur skólabíla í einstaka grunnskóla og akstur nemenda grunnskóla í sund, leikfimi og handmennt. Einnig á almennan strætóakstur.

Enginn klór og enginn í sund

Sem dæmi um áhrif á starfsemi sem tilheyrir ÍTR gæti orðið fóðurskortur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum auk þess sem vandamál gæti komið upp við að útvega aðföng og klór sem leitt gæti til þess að loka þyrfti sundlaugum í borginni.

Iðnaðarmenn hafa boðað verkfall 10.-16. júní. Komi til þess gætu framhalds- og viðhaldsframkvæmdir frestast. Þó kemur fram að gera megi ráð fyrir því að í neyðartilvikum verði eigendur verktakafyrirtækjanna kallaðir út.

Á menningar- og ferðamálasviði er búist við að mest áhrif verði hjá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, sem árlega veitir yfir 300 þúsund ferðamönnum upplýsingar.

Komi til verkfalls háskólamenntaðra starfsmanna í stjórnarráðinu mun það hafa mikil áhrif á tekjustreymi borgarsjóðs. Þannig yrðu tafir á útsvarsgreiðslum til borgarinnar, en útsvar er áætlað 4,4 ma. kr. í maí svo dæmi sé tekið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert