Villtist á Fimmvörðuhálsi

mbl.is/Eggert

Björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og Vík í Mýrdal hafa í kvöld leitað ferðalangs er var villtur á Fimmvörðuhálsi. Hringdi hann í Neyðarlínu eftir aðstoð á sjötta tímanum í dag. Sagðist hann hafa gengið í átta tíma, vera á merktri gönguleið í svartaþoku og orðinn þreyttur og skelkaður.

Einnig sagði hann stutt í að sími hans yrði straumlaus og rofnaði símtalið áður en neyðarvörður gat óskað eftir meiri upplýsingum. Eftir það náðist ekki samband við manninn, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Göngumenn frá björgunarsveitum fóru á hálsinn auk þess sem leitað var á bílum og vélsleðum. Leitarmenn fóru bæði upp frá Básum og frá Skógum. Var lögð áhersla á að leita fyrst þekktar gönguleiðir og stíga en leitaraðstæður voru frekar erfiðar vegna þokunnar. Það voru svo menn frá Útivist sem voru í Fimmvörðuskála sem fundu manninn við fyrstu vörðu innan hans. Samkvæmt fyrstu upplýsingum var hann heill á húfi. Er hann nú kominn í skála og verður fluttur til byggða í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert