Fólk í neyslu ekki markhópur í Rangárselinu

Seljahverfi.
Seljahverfi. mbl.is/Ómar

„Okkar vilji stendur alls ekki til þess að þessi ráðstöfun raski öryggi íbúa í Seljahverfi,“ segir Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Kurr hefur verið meðal íbúa í hverfinu vegna þeirrar ákvörðunar borgarinnar að breyta hlutverki þjónustuíbúða í Rangárseli 16-20, þar sem fólk með fötlun hefur búið um árabil. Nú er það flutt á brott og ætlunin að í stað þess komi „notendur með samþætta fötlun s.s. þroskahömlun, einhverfu og frávik í hegðun“, eins og segir í kynningu velferðarsviðs á því hvernig mál þetta er vaxið.

Í hjarta hverfisins

Í vikunni héldu íbúar í Seljahverfi fund vegna þessa máls, en þeir hafa haft áhyggjur af því að þarna veljist inn íbúar sem glíma við fíkniefnavanda og geti því verið líklegir til þess að sýna af sér ógnandi hegðun. Í ályktun fundarins er bent á að íbúakjarninn sé í hjarta hverfisins og í grenndinni séu skólar, félagsmiðstöð og kirkja og þar með í gönguleið allra barna og unglinga í hverfinu. Telja íbúr jafnfrant að yfir vafa sé hafið að breytt notkun á húsnæðinu kalli ótvírætt á breytingu á deiliskipulagi sem þurfi þá að fara í grenndarkynningu.

Björk Vilhelmsdóttir segir að sér þyki miður hver viðbrögð Selhverfinga vegna þessar ákvörðunar séu – og nefnir í því sambandi fordóma og hræðslu.

„Ég skammast mín heldur ekkert fyrir að hafa látið tilfinningar mínar taka völdin þegar ég gagnrýndi þessi viðhorf á fundinum í Seljakirkju, í húsi sem einmitt er staður þar sem umburðarlyndi ætti að ríkja. Starfsmaður borgarinnar mun hafa sagt að ekki væri hægt að útiloka fíkniefnaneyslu einhvers þarna frekar en í öðrum íbúðum í Reykjavík, en fólk í neyslu væri ekki markhópurinn. Þetta allt hefur verið túlkað mjög frjálslega. Auðvitað getum við aldrei valið okkur nágranna og fólk er eins misjafnt og það er margt,“ segir Björk og heldur áfram:

Búseta við hæfi

„Hlutverk velferðarráðs er að allir Reykvíkingar geti fengið búsetu við hæfi. Ég er ekki inni í einstaka málum fólks sem leitar til borgarinnar eftir þjónustu sem það á rétt á. Hvar fólk fær íbúð byggist á mati fagfólks og því verðum við einfaldlega að treysta.“

Í kringum heitan graut

Breytingarnar í Rangárseli eru gagnrýndar meðal íbúa í Seljahverfi sem rætt hafa málið á Facebook-síðu. Meðal þeirra sem leggja orð í belg er Frank Ú. Michelsen úrsmiður. Hann segir ráðandi öfl í Reykjavík hafa í þessu máli farið um eins og þjófa að nóttu. Um spurningu hvort fíklar verði búsettir í íbúðakjaranum segir Frank Björku Vilhelmsdóttur hafa farið eins og kött í kringum heitan graut með ávirðingar um óvild íbúa Seljahverfis í garð fatlaðs fólks og sjúklinga.
Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert