Gæti gefið hundruð milljarða króna

Sigurður Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigurður Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Stöðugleikaskattur mun skila ríkissjóði hundruðum milljarða króna og gera ríkinu kleift að verja efnahagslegan stöðugleika hér á landi sem og bæta stöðu heimilanna. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Hann sagði að frumvörp um losun gjaldeyrishafta væru að verða tilbúin. Þau yrðu lögð fram á þessu þingi og um leið yrði stöðugleikaskatturinn, og útfærsla á honum, kynntur.

Aðspurður hvort kjaradeilurnar myndu hafa áhrif á áformin um að aflétta gjaldeyrishöftum sagði Sigmundur:

„Það mun hafa áhrif á þetta, eins og annað, ef menn semja á þann hátt að verðbólgan fari á fullt. En það á ekki að þurfa að koma í veg fyrir að menn setji áætlun um losun hafta í gang og grípi til ráðstafana sem því fylgja. Þótt það gæti hugsanlega tafið ferlið á ekki að koma í veg fyrir það.“

Hann sagði að stöðugleikaskatturinn yrði kynntur um leið og þessar aðgerðir yrðu settar í gang.

„Það er alveg ljóst að til þess að hægt sé að aflétta höftum þarf töluvert af þessu fjármagni að verða eftir í landinu, öðruvísi geta þessir fjárfestar ekki innleyst hagnaðinn og farið út með restina,“ nefndi Sigmundur Davíð og sagði að um verulegar fjárhæðir væri að ræða.

Það gæti gert ríkissjóði kleift að verja hér efnahagslegan stöðugleika og bæta stöðu heimilanna með því að halda aftur af verðbólgu og lækka vexti á skuldum ríkissjóðs og þar með á skuldum heimilanna.

„Þar með gerir þetta okkur betur í stakk búin til þess að sinna öllu því sem stjörnvöld þurfa að sinna fyrir almenning í landinu.“

Forsætisráðherra sagði að þessar aðgerðir miðuðu ekki síst að því að verja íslensku krónuna, því hún hefði svo mikil áhrif á til dæmis verðlagið í landinu og skuldirnar. 

„Við höfum viljað hafa eins góða vissu og möguleiki er fyrir því að hægt sé að verja gjaldmiðilinn þegar höftin verða losuð.“

Almenni markaðurinn gefi merkið

Hvað varðar kjaradeilurnar, þá sagði hann alveg ljóst að almenni markaðurinn þyrfti að gefa merkið sem ríkið síðan fylgdi. Það hefði aldrei verið skynsamlegt að ríkið leiddi launaþróunina, heldur þyrfti ríkið að sjá hvað almenni markaðurinn gerði. „Vonandi förum við að fá merkið frá almenna markaðnum,“ sagði Sigmundur.

Fréttir mbl.is:

Nýtt stöðu sína í pólitískum tilgangi

Já­kvæðni átt und­ir högg að sækja

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert