Mismunun ríkir í efnahagslífinu

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/RAX

Peningastefna sem tryggir stöðugleika og samkeppnishæfni gjaldmiðilsins er forsenda fyrir því að við getum gert efnahagslega skynsamlega kjarasamninga og komist nær því að brúa bilið á milli hins kalda veruleika efnhagslífsins og þess sem tilfinningarnar segja að sé réttlátt.

Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á borgarafundi um yfirstandandi kjaradeilur í Iðnó á fimmtudag.

Þorsteinn sagði að í aðdraganda kjarasamninganna fyrir tveimur árum hefðu aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir skýrri stefnu í peningamálum, því stöðugleiki í þeim efnum væri forsenda þess að hægt væri að ná árangri. 

„Það voru gerðir skammtímasamningar vegna þess að ríkisstjórnin gat ekki svarað þessari spurningu. Ég hef ekki séð að hún hafi svarað henni enn,“ sagði Þorsteinn.

Hann bætti við að við mættum ekki gleyma því að við núverandi aðstæður væru flest stærstu útflutningsfyrirtæki landsins í þeirri stöðu að hafa tekjur í erlendri mynt og geta tekið lán í erlendri mynt á lágum vöxtum. „Það eru minni fyrirtæki og einstaklingar sem þurfa að búa við mynt sem sveiflast fram og til baka og kallar á margfalt hærri vexti en stærri útflutningsfyrirtækin hafa.

Dettur mönnum í hug að það verði nokkurn tímann hægt að brúa bilið á milli hins kalda veruleika efnahagslífsins og tilfinninga um það sem menn telja réttlátt á meðan þessi mismunun ríkir í efnahagslífinu? Ég held að það sé ekki hægt.“

Frétt mbl.is: Þurfum að brúa bilið með verðbólgu

Frétt mbl.is: „Ætlar einhver að bæta tjónið?“

Frétt mbl.is: „Það er traustið sem vant­ar“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert