Nokkur erill hjá lögreglu

mbl.is/Sigurður Bogi

Nokkuð erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.

Rétt eftir klukkan ellefu í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um að bakpoki hefði verið tekinn ófrjálsri hendi í austurbænum, en pokinn hafði gleymst utan við heimili tilkynnanda. Í bakpokanum var meðal annars fartölva.

Pokinn fannst síðan skammt frá en fartölvan var þá ekki í honum.

Rétt um miðnætti var maður síðan stöðvaður í akstri, grunaður um akstur undir áhrifum amfetamíns og kókaíns. Málið var afgreitt samkvæmt venju, að sögn lögreglunnar, og má viðkomandi eiga von á sviptingu ökuleyfis í framhaldinu.

Nokkuð var af fólki í miðbænum og erill sem því fylgdi. Hins vegar kom ekkert alvarlegt upp að þessu sinni, eins og segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Milli 18:00 og 19:00 í gærkvöldi var tilkynnt að kona hefði fallið meðvitundarlaus til jarðar við höfnina. Um var að ræða eldri konu, þýskan ferðamann, sem féll við landganginn á skemmtiferðaskipi sem hún var að ferðast með. Sjúkralið kom henni til aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert