Rötuðu ekki heim til sín

mbl.is/Þórður Arnar

Um sexleytið í gærkvöldi fékk lögreglan í Hafnarfirði og Garðabæ tilkynningu um tvo þriggja ára pilta sem rötuðu ekki heim til sín. Haft var uppi á foreldrum þeirra sem voru sjálfir farnir að leita drengjanna.

Piltarnir höfðu að sögn elt eldri drengi en misst af þeim og ekki ratað til baka, að sögn lögreglunnar.

Þá var ökumaður stöðvaður rétt um klukkan 17, en hann reyndist vera undir áhrifum kókaíns. Málið var afgreitt samkvæmt venju og má viðkomandi eiga von á sviptingu ökuleyfis í framhaldinu.

Um klukkan 17 fóru lögregla og sjúkralið til aðstoðar einstaklingi sem sagðist hafa neytt talsverðs magns lyfja og fíkniefna. Honum var komið í viðeigandi hendur heilbrigðisstéttarinnar.

Þá var maður handtekinn um miðnætti eftir að lögregla fór í heimahús vegna tilkynningar um ágreining milli karls og konu. Í ljós kom að maðurinn hafði veist að sambýliskonu sinni og var hann vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann, en hann var nokkuð ölvaður. Konan var ekki mikið slösuð eftir árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert