Glæsilegt met Birnu í Kaupmannahöfn

Birna Varðardóttir setti Íslandsmet 20 - 22 ára í maraþonhlaupi …
Birna Varðardóttir setti Íslandsmet 20 - 22 ára í maraþonhlaupi í morgun. Úr einkasafni

Birna Varðardóttir sló í morgun Íslandsmet í maraþonhlaupi kvenna í aldurflokknum 20 - 22 ára í Kaupmannahafnarmaraþoninu. Hljóp hún kílómetrana 42,2 á þremur klukkustundum, 15 mínútum og 27 sekúndum.

„Ég vissi að gamla metið var þrír og hálfur tími þannig að ég hafði það bak við eyrað,“ sagði Birna í samtali við mbl.is, aðspurð hvort markmiðið hafi verið að slá metið í dag. Hún er ánægð með þessa byrjun á sumrinu og setur stefninu hærra í sumar.

„Ég ákvað að byrja sumarið á þessu hlaupi og taka svo stöðuna, þannig að ný markmið verða sett þegar heim er komið.“ Íslandsmet kvenna er frá árinu 1999, en það setti Marta Erntsdóttir á tímanum 2:35:15. Aðspurð hvort stefnan væri sett á það sagði Birna það ekki á stefnuskránni. 

„Ég er náttúrulega bara 21 árs þannig að ég á nóg eftir og það eru bara spennandi tímar framundan hjá mér.“ Birna sagðist aðspurð vera frekar lúin í fótunum eftir hlaupið. „Fyrstu 30 kílómetrana er þetta fínt en eftir það tekur maður bara hvern kílómetra fyrir sig og þá hefst þetta allt saman. En ég finn vel fyrir lærunum og öllu núna.“ Þrátt fyrir þetta liggur hún ekki fyrir eftir áreynsluna. „Nei, ég er bara að rölta um Strikið núna. Það er bara fínt að sleikja sólina aðeins og rölta hægt, betra heldur en að liggja uppi í sófa og gera ekkert.“

Hér má sjá viðtal mbl.is við Birnu síðasta haust þegar hún gaf út bók sem fjallar um baráttu hennar við átröskun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert