Dúxaði og ætlar í kvikmyndageirann

Dagmar Björk Bjarkadóttir varð dúx FG við útskrif um helgina.
Dagmar Björk Bjarkadóttir varð dúx FG við útskrif um helgina. Mynd/Úr einkasafni

Eftir að hafa hlotið hæstu einkunn útskriftarnemenda í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ stefnir Dagmar Björk Bjarkadóttir á að fara til Bandaríkjanna til náms í kvikmyndaframleiðslu. Hún segir að lykillinn á bak við árangurinn sé frekar einfaldur. Hún hafi alla tíð viljað standa sig vel í námi og alltaf gert sitt besta. Henni hafi svo gengið betur og betur eftir því sem leið á námið og endaði sem fyrr segir sem dúx við útskrift skólans nú á laugardaginn.

Sex tungumál

Dagmar segir að hún hafi alltaf átt auðvelt með að muna hluti og það hjálpi sér væntanlega í náminu. Hún útskrifaðist af málabraut og er fær á sex tungumál, ensku, frönsku, þýsku, spænsku, dönsku og svo auðvitað íslensku. Hún segist lengi hafa haft áhuga á Þýskalandi og að fara þangað eftir námið. Þannig hafi áhugi hennar á þýsku verið sterkur. Þá býr faðir hennar í Síle og segir Dagmar að það sé örugglega hentugt að kunna spænskuna vel þegar hún fer þangað.

Dagmar er dóttir Soffíu Dagmar Þorleifsdóttur og Bjarka Vilbertsson. Hún sér fram á að taka sér eitt ár í frí eftir fjölbrautarskólann, vinna og safna peningum, en hún hefur einnig unnið í verslun samhliða námi síðasta eitt og hálfa árið.

Námskeið í skólanum kveikti kvikmyndaáhugann

Þegar blaðamaður spurði Dagmar um áform um frekara nám var hún nokkuð ákveðin og sagðist hafa hug á kvikmyndaframleiðslu og væri nú að skoða skóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Segir hún að þessi áhugi hafi komið nokkuð nýlega til, en í febrúar tók hún námskeið í skólanum um kvikmyndagerð og gerði hún meðal annars kvikmyndastiklu.

Það kveikti eldinn í þessum efnum hjá henni, en Dagmar segist einnig hafa fylgst nokkuð með vinafólki fjölskyldunnar sem hefur unnið að kvikmyndaframleiðslu.

Dagma útskrifaðist af málabraut skólans.
Dagma útskrifaðist af málabraut skólans. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert