Guðlaugur Þór kjörinn varaformaður AECR

Guðlaugur Þór (í miðið) ásamt fyrrverandi formanni ECR, Callanan lávarði …
Guðlaugur Þór (í miðið) ásamt fyrrverandi formanni ECR, Callanan lávarði (t.h.) og núverandi formanni, ECR Syed Kamall Evrópuþingmanni.

Guðlaugur Þór Þórðarson, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, var kjörinn varaformaður Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna (AECR) um helgina á ráðsfundi samtakanna, sem haldinn var í Winchester í Bretlandi. 

Hann tekur við af Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem verið hefur varaformaður undanfarin fjögur ár. Sigríður Ásthildur Andersen þingmaður var kjörin í ráð samtakanna, að því er segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum. 

Guðlaugur Þór hefur setið í ráði AECR undanfarin fjögur ár og tekið virkan þátt í mótun stefnu samtakanna sem hafa vaxið ört á undanförnum árum. Hann tók sem formaður SUS árið 1993 jafnframt þátt í stofnun Ungra evrópskra íhaldsmanna (European Young Conservatives), sem eiga í náinni samvinnu við AECR, segir í tilkynningunni.

AECR eru alþjóðleg samtök stjórnmálaflokka sem aðhyllast Evrópu- og alþjóðasamstarf sem og hugmyndir um einstaklingsfrelsi, þingræði og virðingu fyrir fullveldi þjóðríkja.  Helstu stefnumál AECR eru aukið viðskipta- og athafnafrelsi, áhersla á frjáls og sanngjörn viðskipti, lækkun skatta, takmörkun ríkisvalds í þágu einstaklingsfrelsis og þjóðarhags. Þá leggja þau megináherslu á vestrænt samstarf, m.a. innan NATO. Einnig vilja samtökin að orkuöryggi í formi sjálfbærrar og hreinnar orku sé tryggt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert