Loka hluta Háaleitisbrautar í viku

Háaleitisbraut frá Kringlumýrarbraut að Skipholti verður lokað næstu vikuna.
Háaleitisbraut frá Kringlumýrarbraut að Skipholti verður lokað næstu vikuna. Júlíus Sigurjónsson

Unnið er við að leggja nýja vatnslögn meðfram Kringlumýrarbraut og á morgun, þriðjudaginn 26. maí, verður byrjað að grafa fyrir henni þvert á Háaleitisbraut. Vegna framkvæmdanna verður þeim kafla Háaleitisbrautar sem liggur frá Kringlumýrarbraut að Skipholti lokað tímabundið. Áætlað er að lokunin vari í viku en brjóta verður lögninni leið um klöpp undir götunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Framkvæmdin hefur ekki áhrif á umferð bíla um Kringlumýrarbraut að frátöldu því að ekki verður hægt að beygja af Kringlumýrarbraut inn á þennan kafla Háaleitisbrautar að Skipholti. Lokunin hefur aðeins áhrif á leið 11 hjá Strætó og verða tilkynningar settar upp á þær biðstöðvar sem falla tímabundið úr þjónustu. Gangandi og hjólandi um gatnamótin þurfa einnig að leggja lykkju á leið sína. Vegfarendur eru hvattir til að sýna aðgát við framkvæmdasvæðið og á hjáleiðum. 

Nýr hjólastígur nýtur góðs af vatnslögninni

Framkvæmdin í heild er lagning 600 mm vatnslagnar meðfram Kringlumýrarbraut frá dæluhúsi neðan við Laugaveg upp að Miklubraut.  Vatnslögnin kemur meðfram núverandi gönguleið vestan Kringlumýrarbrautar og á síðari stigum verksins kemur nýr hjólastígur ofan á hana. Jarðvegsframkvæmdir nýtast þannig bæði vatnslögninni og hjólastígnum.

Verkið er unnið í samstarfi Reykjavíkurborgar, Orkuveitunnar, Mílu og Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert