Stórt, flókið og tímafrekt

Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki. Málið er eitt stærsta dómsmál …
Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki. Málið er eitt stærsta dómsmál Íslandssögunnar og hefur gríðarleg vinna og fjármunir farið í það.

Það er ekkert skrítið ef stóra markaðsmisnotkunarmál Kaupþings er farið að þvælast fyrir fólki. Málið er gífurlega umfangsmikið og hefur verið reglulega í fréttum frá því að ákæra í málinu var gefin út í mars 2013. Þá kláraðist aðalmeðferðin á föstudaginn, eftir 5 vikur í dómsal, þar sem tæplega 60 vitni komu fyrir dóminn og öll þau níu sem eru ákærð í málinu. Málið er því réttilega orðið eitt af þeim flóknari og umfangsmeiri sem hafa komið fyrir íslenska dómstóla.

Málið í hnotskurn

Í mjög stuttu máli gengur málið út á að saksóknari hefur ákært níu fyrrum starfsmenn Kaupþings fyrir allsherjar markaðsmisnotkun og umboðssvik. Telur ákæruvaldið að starfsmenn deildar eigin viðskipta bankans hafi, að undirlagi stjórnenda bankans, keypt bréf í bankanum í stórum stíl á tímabilinu 1. nóvember 2007 til falls bankans í október 2008. Þar sem bankinn má ekki eiga nema 10% í sjálfum sér samkvæmt lögum og til að koma í veg fyrir flöggun til Kauphallar við 5% markið, þá segir saksóknari að stjórnendur bankans hafi leitað uppi væntanlega kaupendur og lofað þeim fjármögnun á kaupunum þar sem bréfin voru eina tryggingin, eða að tryggingar hafi verið lítilvægar.

Saksóknari segir þetta lýsa sýndarviðskiptum þar sem reynt var að koma í veg fyrir lækkun á gengi hlutabréfa bankans, en til að klára heildarmálið hafi þurft samþykki yfirmanna útlánamála svo hægt væri að lána fyrir viðskiptunum. Eru þess vegna tvö ákærðu ákærð fyrir umboðssvik við lánveitingar.

Nánar um ákæru sérstaks saksóknara  

I hluti – kauphlið markaðsmisnotkunarinnar

Kauphlutinn snýr að fyrrnefndum viðskiptum eigin viðskipta með bréf í bankanum sjálfum. Saksóknari hefur undanfarnar vikur farið ítarlega yfir þær skýringar og gögn sem hann telur að sýni fram á að kaupin hafi verið óvenju mikil, í þeim hafi falist stuðningur með því að veita fjárfestum alltaf seljanleika á bréfunum og vera tilbúinn að kaupa bréf. Hefur saksóknari vísað til þess að bankinn hafi í raun hagað sér eins og viðskiptavaki, þegar raunin hafi verið sú að hafi aldrei látið vita um slíkt út á markaðinn. Þá hefur hann spilað fjölda símtala þar sem hann segir ljóst að starfsmenn deildarinnar séu að tala um að halda verði bréfanna uppi og styðja við það. Meðal annars töluðu starfsmennirnir um að „rífa upp“ verð, „halda við“ þau, „kippa í“ Kaupþingsbréfin og „að koma sterkur inn.“

Verjendur ákærðu hafa á móti sagt að horfa verði til þess landslags sem ríkti á markaðinum á þessum árum, þess tungutaks sem hafi verið notað og að saksóknari ýki hlutfallsreikning sinn þegar hann horfir á hlutdeild Kaupþings í eigin viðskiptum með því að sleppa utanþingsviðskiptum. Viðskiptavakin hafi þá verið óformleg vakt sem bankanum hafi verið heimilt að halda úti. Hafa þeir ítrekað haldið því fram að hlutverk deildarinnar hafi aðallega verið til að auka seljanleika í eigin bréfum til viðbótar við stöðutöku í hlutabréfum almennt á markaði.

Kaupin að undirlagi yfirmanna

Í ákæru málsins kemur fram að talið sé að starfsmenn deildarinnar hafi framkvæmt viðskiptin „að undirlagi“ yfirmanna sinna og eru auk þremur starfsmönnum deildarinnar tilgreindir þeir Ingólfur Helgason, forstjóri bankans á Íslandi, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri samstæðunnar og Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans. Kom fram í vitnaleiðslunum að á ákærutímabilinu hafi yfirmaður deildarinnar óskað eftir því að bréf bankans yrðu ekki tekin saman á bók deildarinnar, heldur reiknuð sér svo þau hefðu ekki áhrif á bónusgreiðslur til starfsmanna. Leiddi saksóknari líkur að því að það hafi verið gert vegna þess að deildin taldi bréfin slæman fjárfestingakost.

Starfsmennirnir þrír sögðu aftur að það hafi verið vegna þess að deildin hafði í raun ekkert með þessi bréf að segja, heldur hafi yfirmenn bankans ráðið ferðinni og virtust almennt beinast mikið að Ingólfi í þessu samhengi. Í vörn sinni hefur Ingólfur aftur á móti gefið í skyn að hann hafi ekki ráðið miklu í bankanum, bent á meinta formgalla í ákærunni og sagt röksemdir saksóknara gegn sér ekki ganga upp. Þá hafa ákærðu bent á að saksóknari hafi ekki rannsakað málið í heild sinni og tekið mið af fréttum, öðrum viðskiptum á markaði o.s.frv. og þess vegna sé ómögulegt að meta ástæður hverju sinni fyrir kaupunum. Segja þeir að sanna þurfi markaðsmisnotkun í hvert einasta skipti og að það hafi ekki verið gert í málinu.

Aðkoma Hreiðars og Sigurðar að þessum hluta málsins er nokkuð óljós, en þeir fengu þó reglulega upplýsingar um kaup deildarinnar og áttu, samkvæmt saksóknara, að vita um mikið tap deildarinnar á tímabilinu. Vísa þeir þessu á bug og hafa bent á sjálfstæði deildarinnar, meðan starfsmenn hafa bent á að Ingólfur hafi næstum því handstýrt gengi bankans og haft mikil afskipti af deildinni.

II hluti - söluhliðin

Í öðrum lið ákærunnar er svo komið að söluhliðinni, en þar eru þeir Ingólfur, Sigurður og Magnús Guðmundsson, fv. Forstjóri Kaupþings í Lúxemborg ákærðir fyrir að hafa greitt fyrir eða komið á viðskiptasamböndum við stóra viðskiptavini bankans sem hafi fengið gríðarlega stór lán til kaupa á bréfum í Kaupþingi, án eða með litlum tryggingum. Þá hafi þeir ranglega látið líta út fyrir að félögin hafi komið með fjármagn inn í bankann. Um er að ræða félögin Fjárfestingafélagið Mata, Holt investment og Desulo.

Samtals er um að ræða 68,25 milljón hluti fyrir tugi milljarða, sem bankinn lánaði til þessara kaupa. Ákæruvaldið heldur því fram að stjórnendur bankans hafi með þessu gefið misvísandi sýn á eftirspurn eftir bréfunum með blekkingu og sýndarmennsku. Þá hafi söluviðskiptin mest öll átt sér stað í utanþingsviðskiptum, en saksóknari segir það benda til að ekki hafi átt að hafa mikil áhrif á gengi bréfanna þar sem stór slík viðskipti hafi minni áhrif en ef bréfin eru sett á markaðinn í Kauphöllinni með tilheyrandi söluþrýstingi. „Þessi utanþingsviðskipti voru þannig bæði af­leiðing stór­felldr­ar og kerf­is­bund­inn­ar markaðsmis­notk­un­ar ákærðu og for­senda þess að ákærðu gætu haldið henni áfram,“ seg­ir í ákær­unni.

Menn greinir á hvernig þessar viðskiptaákvarðanir hafi allar verið teknar og hver hafi sagt hvað við hvern, en aðkoma Magnúsar er jafnvel sú áhugaverðasta, þar sem saksóknari segir hann hafa komið á samskiptum við viðskiptavini dótturfélagsins í Lúxemborg og komið þannig viðskiptunum af stað.

III kaflinn - umboðssvik

Í þriðja og síðasta lið er svo ákært fyrir umboðssvik, en þar eru stjórnendurnir fjórir, auk Bjarka Diego og Bjarkar Þórarinsdóttur ákærð fyrir aðkomu sína að því að lána félögunum og þannig gera kaupin möguleg. Bjarki hefur ítrekað sagt að þegar hann fékk málin á borð til sín þá hafi verið búið að veita ígildi lánanna með að keyra í gegn viðskipti í Kauphöllinni, áður en lánveitingar voru farnar í gegnum lánanefnd. Með þessu hafi neitun lánanefnda í raun verið gerð ómöguleg. Mál Bjarkar hefur einnig tekið talsverðum stakkaskiptum í aðalmeðferðinni, en saksóknari dró úr nauðsyn þess að dæma hana og hefur verið talið að henni verði sleppt eða eða dæmd fyrir tilraun til brots, en ekki meint brot sjálft.

Margir hinna ákærðu hafa farið fram á frávísun fyrir dómi, en meðal þess sem hefur verið dregið fram er hvernig staðið var að hlerunum skort á hlutlægisframsetningu ákæruvaldsins, meint skjalafals dómara, aðstöðu fanga til að vera viðstaddir réttarhöld og formgöllum við kæru málsins. Þá fór mikið púður í það þegar verjendur fluttu mál sitt að uppsetning ákæruvaldsins á ákærunni væri þannig að mikið vantaði upp á að vísa til þess hvað nákvæmlega væri ólöglegt í háttsemi þeirra og sögðu þeir að allar hliðar málsins væru í raun löglegar og því væri ekki hægt að reyna að horfa á málið í heild og dæma það ólögmætt. Saksóknari var þessu ósammála og sagði að í ákærunni væri skýrt og skilmerkilega tiltekið hvað væri að ákæra fyrir og hvernig brotin skiptust niður á hvern dag.

Takmörkuð dómafordæmi

Dómarar í málinu hafa ekkert allt of mikið af dómafordæmum til að miða við í þessu máli, en helst er þar hægt að horfa til Al Thani málsins. Þó er margt ólíkt með þessum málum og ljóst að dómarar munu fara nokkuð ótroðnar slóðir við ákvörðun málsins. Það er því næsta ljóst að hver sú sem niðurstaðan verður í málinu að henni verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Héraðsdómur hefur aftur á móti fjórar vikur til að kveða upp dóminn, en ekki er þó kveðið á um endurflutning máls nema að átta vikum liðnum. Fordæmi eru fyrir að uppkvaðning taki lengri tíma en fjórar vikur og má því ætla að niðurstaða héraðsdóms liggi fyrir í lok júní eða í júlímánuði.

Meðal ákærðra í málinu. Yfirmenn bankans, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur …
Meðal ákærðra í málinu. Yfirmenn bankans, Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason og Sigurður Einarsson. Í neðri línunni eru fv. starfsmenn eigin viðskipta, þeir Birnir Sær Björnsson, Einar Pálmi Sigmundsson og Pétur Kristinn Guðmarsson.
Saksóknari virðist hafa mildast í afstöðu sinni gagnvart Björk meðan …
Saksóknari virðist hafa mildast í afstöðu sinni gagnvart Björk meðan aðalmeðferð málsins stóð yfir.
Bjarki Diego er ásamt Björk aðeins ákærður fyrir aðild að …
Bjarki Diego er ásamt Björk aðeins ákærður fyrir aðild að umboðssviki, en ekki markaðsmisnotkun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ákæruvaldið telur Magnús hafa komið að söluhlið málsins með að …
Ákæruvaldið telur Magnús hafa komið að söluhlið málsins með að koma á tengingu við mögulega kaupendur. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert