„Byggja undir áframhaldandi kaupmáttaraukningu“

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ánægjulegt að þarna eru komin samningsdrög til nokkuð langs tíma sem ættu, ef framkvæmd þeirra ganga eftir, að byggja undir áframhaldandi kaupmáttaraukningu,“ segir Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um samningsdrögin sem kynnt voru í kvöld.

Samningsdrögin gera ráð fyrir þriggja og hálfs árs samningi. Spurður út í samningstímann, segir hann það hafa verið sameiginlega lendingu aðilanna. „Þetta var á endanum bara sameiginleg niðurstaða aðila þegar sest var yfir þann ramma sem var til umræðu.“

Hann segir að tíminn myndi leiða í ljós áhrif samningsins á verðbólgu. „Þessi samningur mun reyna talsvert á þolmörk fyrirtækja til launahækkana, en við töldum að í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi þá hafi þetta verið skynsamleg lending. Að öðru leyti þá á bara eftir að sjá hvernig þetta gengur til enda en við teljum góðar líkur á því að þetta ætti að leiða til kaupmáttaraukningar,“ segir Þorsteinn.

Sjá frétt mbl.is: 300 þúsund lágmarkslaun árið 2018

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert