Eignaðist í þeim afskaplega góða vini

Helga Baldursdóttir er ein þeirra sextán Þingeyinga sem Halldóra fékk …
Helga Baldursdóttir er ein þeirra sextán Þingeyinga sem Halldóra fékk að tala við og mynda. Halldora Kristin

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á eldra fólki og sögum frá fyrri tíð, enda hef ég alltaf verið í miklum samskiptum við afa mína og ömmur. Ég var líka svo heppin að eiga tvo langafa og tvær langömmur á lífi allt þar til fyrir fjórum árum. Sögur þessa fólks hafa snert mig,“ segir Halldóra Kristín Bjarnadóttir ljósmyndari en hún opnaði ljósmyndasýningu í Safnahúsinu á Húsavík um síðustu helgi með yfirskriftinni: Í andlitinu speglast sagan – Bernskuminningar úr Þingeyjarsýslu. Sýningin samanstendur af ljósmyndum Halldóru af sextán einstaklingum úr heimasveit hennar sem allir eru yfir 65 ára, en einnig eru textar sem sýna brot úr minningum þessa fólks.

„Hugmyndin kviknaði þegar ég var í ljósmyndanámi á Ítalíu og var að hugsa heim, einu sinni sem oftar. Þá fann ég hversu margt er sérstakt við gamla sveitalífið heima á Íslandi, og ég áttaði mig á því hversu mikilvægt er að geyma þessar heimildir. Mig langaði til að taka andlitsmyndir af gamla fólkinu í sveitinni heima og láta það segja mér sögur frá bernskuárum sínum. Ég vildi fanga reynslu þeirra í ljósmyndum þar sem áherslan er á andlitsdrætti og svipbrigði,“ segir Halldóra sem fékk í framhaldinu sumarstarf hjá Þekkingarneti Þingeyinga sem og styrk til að fara af stað með verkefnið.

Sögðu einlæglega frá

Halldóra vildi fá ákveðna fjölbreytni í frásagnirnar og því kemur fólkið frá ólíkum stöðum í Þingeyjarsýslunni; sumir ólust upp við sjóinn en aðrir inni í landi í bændasamfélaginu.

„Þetta var frábær reynsla fyrir mig að fá að hitta þetta fólk, spjalla við það og mynda. Ég eignaðist í þeim afskaplega góða vini og alveg ótrúlegt hvað þau opnuðu sig fyrir mér. Þetta var mjög gefandi vinna á allan hátt. Fæstir töldu sig hafa frá einhverju að segja en þegar þau byrjuðu að tala kom annað í ljós. Þetta eru svo skemmtilegar frásagnir og merkar heimildir, þær verða varðveittar þótt aðeins brot af þeim sé á sýningunni,“ segir Halldóra og bætir við að hún hafi valið á sýninguna frásagnir sem eru ekki hetjusögur heldur einlægar hversdagssögur. Minningar úr daglegu lífi.

Fimm ára með hníf í haga til að lóga lömbum

Halldóra segir að mest hafi sér komið á óvart hin sterku tengsl þessa fólks á barnsaldri við dauðann.

„Til dæmis segir ein kvennanna frá því þegar hún fimm ára stúlka var látin ganga með hníf á sér um hagana að vori, því ef hún kæmi að nýfæddum lömbum sem hrafninn væri búinn að kroppa augun úr átti hún að aflífa þau. Þetta er vissulega fjarri okkar nútíma, að kenna fimm ára barni að lóga dýri. Þessar sláandi sögur sýna vel hversu mikið tímarnir hafa breyst. Börn voru líka látin vinna mikið á bernskuárum þessa fólks, miklu meira en börn í dag, þau þurftu að sinna búverkum alla daga frá unga aldri. Afi minn var til dæmis ekki nema þriggja ára þegar hann var látinn sitja á og stjórna hestinum sem leiddi lestina sem fór með heyið heim af túnunum í heyskapnum. En þau töluðu öll um að þeim hefði liðið vel og ekki þurft að líða matarskort. Gerður á Skútustöðum, sem er elst í þessum hópi, var sannfærð um að íslenskur hollur hversdagsmatur bernskunnar hefði komið henni þangað sem hún er í dag, hraust og skýr í kollinum, 94 ára. Gerður er alveg mögnuð kona.“

Skriðdreki á bæjarhlaði

Halldóru fannst einnig merkilegt að heyra frásagnir þeirra af hernáminu.

„Mörg þeirra höfðu verið mjög hrædd við hermennina, enda öll á barnsaldri, og heldur ógnvekjandi þegar allt í einu var kannski skriðdreki á hlaðinu á einhverjum bænum hér í Aðaldal og herflugvélar sífellt að fljúga yfir. Þau höfðu mörg átt samskipti við hermenn, sem kom í ljós að voru vænstu menn, stundum voru þeir með brjóstsykur í vasanum til að gefa krökkunum. Afi minn Guðmundur segir frá því þegar hann og vinur hans komu sér fyrir í skurði með skít í lófunum og ætluðu að kasta í hræðilegu og hættulegu hermennina, en þegar til kastanna kom reyndust þeir vera Íslendingar að vinna fyrir herinn.“

Komin aftur í sveitina

Halldóra er fædd og uppalin á bænum Aðalbóli í Aðaldal, en hún var einnig mikið á bænum Grímshúsum þar sem amma hennar og afi bjuggu.

„Heima á Aðalbóli var ekki búskapur en ég var með tvo hesta. En afi, amma og móðurbróðir minn á Grímshúsum voru með búskap og ég er svo heppin að hafa verið mikið þar,“ segir Halldóra sem kláraði framhaldsskóla á þremur árum og fór svo út til Mílanó og Danmerkur til að læra ljósmyndun. Hún hefur einnig verið í listfræði við Háskóla Íslands en nú er hún komin aftur heim í sveitina sína í Aðaldalinn og er í fjarnámi í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

„Mér finnst gaman að tvinna þetta allt saman, þar sem áhugasvið mitt liggur, og svo spila ég bara úr því. Nú langar mig til að gefa út á bók þessar myndir og texta frá sýningunni, og það er verið að skoða það, jafnvel líka á ensku,“ segir þessi 24 ára Þingeyingur, sem á framtíðina fyrir sér.

Ljósmyndasíða Halldóru: snoturt.tumblr.com/
Facebook/halldorakristinphotography
Sýningin á Húsavík stendur út júní.
Halldóra er afar þakklát fyrir afa sína og ömmur.
Halldóra er afar þakklát fyrir afa sína og ömmur. Halldora Kristin
Gerður á Skútustöðum.
Gerður á Skútustöðum. Halldora Kristin
Halldóra í sveitinni með hestana sína.
Halldóra í sveitinni með hestana sína.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert