Framhald þingsins í óvissu

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er óbreytt staða frá því fyrir helgi. Það liggur fyrir að starfsáætlun er ekki lengur í gildi. Nokkuð sem hefur út af fyrir sig oft gerst. Þannig að það er alveg óvíst hvernig þinghaldinu vindur fram og sömuleiðis hvenær því verður lokið.“

Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is spurður að því hvenær gera megi ráð fyrir að núverandi þingi ljúki. Einar tilkynnti á á Alþingi á föstudaginn að starfsáætlun þingsins væri ekki lengur í gildi þar sem ómögulegt væri að halda hana við þær aðstæður sem fyrir hendi væru. Síðasti þingfundur átti samkvæmt áætluninni að eiga sér stað í þessari viku en miklar umræður á þingi um rammaáætlun hafa einkum sett það úr skorðum. það er því ljóst að þingað verður fram á sumar.

Spurður um það hvort fyrir liggi með endanlegum hætti hvaða mál verði lögð áhersla á að klára fyrir þinglok segir Einar að ekki væri farið láta á það reyna enn. „Það þýðir í raun ekki fyrr en þetta mál skýrist sem er í deiglunni núna sem er rammaáætlunin.“

Meðal þeirra mála sem eftir er að taka fyrir á Alþingi eru frumvörp ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta. Þau hafa ekki verið lögð fram en viðbúið er að umræða um þau kunni að taka töluverðan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert