Hættir sem formaður Lögmannafélagsins

Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands
Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands mbl.is

Jónas Þór Guðmundsson mun láta af starfi formanns Lögmannafélags Íslands á aðalfundi félagsins síðar í dag. Einn hefur boðið sig fram í formannssæti félagsins, Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður.

Sú regla gildir hjá félaginu að formaður má eingöngu sitja í þrjú ár samfellt. Jónas Þór hefur setið í stjórn félagsins í fimm ár, þar af sem formaður í þrjú ár, og má því ekki sitja lengur. Formennska í Lögmannafélaginu er ólaunað starf, og sinnir hlutaðeigandi lögmaður því embættinu samhliða almennum lögmannsstörfum sínum.

Lögmannafélag Íslands var stofnað árið 1911. Félagið kemur fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða, setur siðareglur fyrir lögmenn og fer með tiltekið eftirlit með störfum þeirra.

Skylduaðild er að félaginu fyrir þá lögfræðinga sem hafa lögmannsréttindi, þ.e. réttindi sem héraðsdómslögmenn og hæstaréttarlögmenn. Félagsmenn eru nú um 1.060 talsins.

Aðalfundur Lögmannafélags Íslands verður haldinn klukkan 16:00 í dag á Nordica-hótelinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert